Landsréttur staðfestir ógildingu samruna á markaði fyrir myndgreiningarþjónustu
Með dómi Landsréttar í dag var staðfest ógilding Samkeppniseftirlitsins á samruna Íslenskrar myndgreiningar ehf. og Læknisfræðilegrar myndgreiningar ehf. Með dóminum er þannig staðfestur dómur héraðsdóms Reykjavíkur frá árinu 2022. Áður hafði áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfest ákvörðun Samkeppniseftirlitsins, sbr. ákvörðun þess nr. 35/2020.
Starfsemi samrunaaðila felst í því að veita læknisfræðilega myndgreiningarþjónustu, en undir hana falla m.a. tölvusneiðmyndarannsóknir, röntgenrannsóknir, ómun, segulómun og skyggnirannsóknir. Starfsemin hefur mikla þýðingu fyrir heilbrigðisþjónustu á landinu. Samkeppnisröskun á þessu sviði getur verið til þess fallin að draga úr gæðum og hækka kostnað við heilbrigðisþjónustu.
Með samrunanum hefði keppinautum á markaðnum fækkað úr þremur í tvo og samanlögð markaðshlutdeild samrunaaðila orðið á bilinu 80-100%, eftir því um hvaða þjónustuþætti er að ræða.
Dómur Landsréttar er aðgengilegur hér.
Fyrri frétt um dóm Héraðsdóms Reykjavíkur er aðgengileg hér.