Leiðbeiningar um undantekningar frá banni við samráði
Samkeppniseftirlitið birtir í dag leiðbeiningar um beitingu 15. gr. samkeppnislaga um undantekningar frá banni við samráði fyrirtækja.
Um áramótin taka gildi grundvallarbreytingar á 15. gr. samkeppnislaga og verklagi í tengslum við undantekningar frá bannreglum 10. og 12. gr. laganna. Í stað fyrirkomulags þar sem undanþága er háð fyrirfram samþykki Samkeppniseftirlitsins verður tekið upp svonefnt sjálfsmatskerfi. Þetta þýðir að frá næstu áramótum munu fyrirtæki sem hyggja á samstarf þurfa að meta sjálf hvort slíkt samstarf stenst samkeppnislög. Sömuleiðis þurfa samtök fyrirtækja að meta hvort starfsemi þeirra uppfylli kröfur samkeppnislaga. Um áramótin fellur því samhliða niður heimild Samkeppniseftirlitsins til þess að veita fyrirtækjum og samtökum fyrirtækja undanþágur frá banni við ólögmætu samráði og samkeppnishömlum. Verður Samkeppniseftirlitinu óheimilt að gefa bindandi álit á því hvort samstarf fyrirtækja uppfylli kröfur 15. gr. laga.
Í þeim leiðbeiningum sem birtar eru í dag er fjallað um þau kjarnaatriði sem hafa þarf til hliðsjónar við mat fyrirtækja á því hvort samkeppnishamlandi samstarf þeirra uppfylli skilyrði 15. gr. laganna. Eru þær liður í því að að auðvelda fyrirtækjum að fara að lögum.
Leiðbeiningar Samkeppniseftirlitsins taka mið af leiðbeiningum Eftirlitsstofnunar EFTA („ESA“) um sjálfsmat fyrirtækja og gilda til fyllingar þeim sem og leiðbeiningum ESA um beitingu samkeppnisreglna gagnvart láréttu og lóðréttu samstarfi fyrirtækja. Ennfremur hefur verið horft til úrlausna úr íslenskri og evrópskri réttarframkvæmd. Við gerð leiðbeininganna aflaði Samkeppniseftirlitið jafnframt umsagna og hélt opinn umræðufund þar sem áhugasömum gafst tækifæri til að koma á framfæri sjónarmiðum.
Leiðbeiningar um beitingu 15. gr. samkeppnislaga má finna hér (pdf).
Gildi eldri undanþáguákvarðana
(Frétt uppfærð 3. mars 2021)
Þær breytingar sem tóku gildi á 15. gr. samkeppnislaga þann 1. janúar sl. leiddu til þess að þær undanþágur sem veittar höfðu verið af Samkeppniseftirlitinu á grundvelli eldra ákvæðis hafa ekki sömu áhrif og áður.
Með gildistöku sjálfsmatskerfis mun hlutverk Samkeppniseftirlitsins einvörðungu felast í því að hafa “ex post“ eftirlit með því að samráðsbann samkeppnislaga sé ekki brotið. Af þessu leiðir einnig að eftir 1. janúar 2021 hefur lagagrundvöll skort fyrir undanþágum sem áður höfðu verið veittar með ákvörðunum Samkeppniseftirlitsins. Eftir 1. janúar 2021 bar viðkomandi aðilum sem nutu undanþágu skv. hinu eldra kerfi því að taka upp sjálfsmat í samræmi við lög nr. 103/2020.
Samkeppniseftirlitið telur aftur á móti málefnalegt að veita fyrirtækjum sem hlotið höfðu undanþágu sem féll úr gildi um áramótin svigrúm til að axla ábyrgð sína í nýju lagaumhverfi. Verður því litið svo á að samstarf sem undanþága hafði verið veitt fyrir uppfylli undantekningarskilyrði 15. gr. samkeppnislaga, án frekari athugunar, til 1. júlí 2021.
Eftir sem áður mælist Samkeppniseftirlitið til þess að fyrirtæki taki sér þegar í stað þá ábyrgð á hendur sem felst í komandi lagabreytingum, þ.e. að leggja sjálft mat á hvort skilyrði fyrir undantekningu frá 10. og 12. gr. samkeppnislaga séu uppfyllt fyrir viðkomandi samstarfi. Skal það áréttað að í kjölfar lagabreytinganna mun Samkeppniseftirlitið ekki geta veitt fyrirtækjum bindandi álit á því fyrir fram hvort tiltekin háttsemi uppfylli lögbundin skilyrði.
Ástæða er til að vekja sérstaka athygli á því að þessi breyting á verklagi og ábyrgð fyrirtækja og samtaka fyrirtækja hefur mikla þýðingu varðandi sönnun. Sönnunarbyrði fyrir því að sjálfsmat fyrirtækja hafi verið fullnægjandi og skilyrði 15. gr. laganna séu uppfyllt, mun hvíla á viðkomandi fyrirtækjum. Fyrirtæki verða að geta sýnt fram á að samstarfið hafi þegar frá upphafi, og allan tímann sem það hefur verið fyrir hendi, uppfyllt öll skilyrði 15. gr. samkeppnislaga og ber þeim að gera það á grundvelli skriflegra sönnunargagna, sbr. nánari umfjöllun í leiðbeiningum Samkeppniseftirlitsins um beitingu 15. gr. Hlutverk Samkeppniseftirlitsins verður þá eingöngu að meta hvort samstarfsaðilum hafi tekist sönnun um framangreint, komi það til rannsóknar.
Við mat á því hvort samstarf uppfylli skilyrði 15. gr. samkeppnislaga má, upp að vissu marki, hafa hliðsjón af þeirri undanþágu sem viðkomandi fyrirtæki hefur áður fengið veitta og starfað eftir, sem og öðrum eldri ákvörðunum Samkeppniseftirlitsins og eftir atvikum úrlausnum áfrýjunarnefndar samkeppnismála og dómstóla. Leiðbeiningargildi eldri úrlausna er hins vegar takmarkað í sjálfsmatskerfi, sbr. mgr. 59–61 í leiðbeiningunum. Tekur það einnig til sönnunarkrafna, sbr. mgr. 94.
Það er því mikilvægt að hafa það hugfast að undanþágur sem Samkeppniseftirlitið veitti á grundvelli eldra ákvæðis 15. gr. samkeppnislaga geta ekki leyst viðkomandi fyrirtæki undan því að meta sjálf hvort skilyrðum 15. gr. sé fullnægt, jafnvel þótt um sé að ræða áframhaldandi og yfirstandandi samstarf sem eftirlitið hefur áður lagt mat á í tíð eldri 15. gr. samkeppnislaga. Sérstaklega þarf að huga að því hvort Samkeppniseftirlitið hafi sett veitingu á undanþágu tiltekin skilyrði sem miðuðu að því að breyta viðkomandi samstarfi eða umgjörð þess til þess að tryggja að það félli undir 1. mgr. 15. gr. samkeppnislaga en samstarfsfyrirtæki geta ekki gefið sér að samskonar skilyrði og Samkeppniseftirlitið setti í eldra kerfi geti tryggt að samstarf uppfylli skilyrði 15. gr. samkeppnislaga eftir 1. janúar 2021. Verða samstarfsfyrirtæki í sjálfsmatskerfi að leggja á það mat miðað við aðstæður hverju sinni hvort breytingar á umgjörð samstarfsins geri það að verkum að það geti notið undantekningar frá banni 10. og 12. gr. samkeppnislaga.