Leiðrétting á efni fréttar Viðskiptablaðsins þann 18. júlí síðastliðin
Í Viðskiptablaðinu þann 18. júlí sl. er fjallað um kvartanir Inter, samtaka aðila sem veita internetþjónusu, í garð Símans. Er haft eftir forsvarsmönnum samtakanna að þeir furði sig á því hvað það taki langan tíma hjá Samkeppniseftirlitinu að fá niðurstöðu í málið. Er því haldið fram að Samkeppniseftirlitið virði ekki málhraðareglu stjórnsýslulaga og að „súrrealískt“ sé að eiga í samskiptum við stofnun sem svari ekki erindum.
Þar sem framangreind umfjöllun er ekki sannleikanum samkvæm er óhjákvæmilegt að taka eftirfarandi fram:
- Kvörtun sú sem gerð er að umtalsefni í fréttinni barst Samkeppniseftirlitinu í febrúar 2018. Í framhaldinu var kvörtunin tekin til skoðunar og leitað upplýsinga og sjónarmiða vegna hennar.
- Í byrjun maí 2018 var aðilum kynnt það frummat Samkeppniseftirlitsins að ekki væru nægar forsendur til að ætla að umrædd háttsemi Símans færi í bága við samkeppnislög. Var aðilum boðið að tjá sig um það frummat.
- Að fengnum frekari upplýsingum og sjónarmiðum aðila á viðkomandi mörkuðum ákvað Samkeppniseftirlitið að taka umrædd álitaefni að nýju til frekari skoðunar. Var viðkomandi aðilum, þar á meðal fyrirtækjum á vettvangi Inter, gerð grein fyrir þessu með ítarlegum hætti í byrjun apríl 2019. Jafnframt var þeim boðið að koma frekari sjónarmiðum og upplýsingum á framfæri.
- Sem lið í ákvörðunartöku um frekari athugun óskaði Samkeppniseftirlitið eftir tilteknum tölulegum upplýsingum frá m.a. aðildarfyrirtækjum Inter. Síðustu gögn frá aðildarfyrirtækjum Inter bárust ekki fyrr en þann 18. júní síðastliðin, en Samkeppniseftirlitið þurfti ítrekað að ganga eftir upplýsingunum. Í framhaldinu hefur Samkeppniseftirlitið verið í samskiptum við forsvarsmann Inter og upplýst hann um stöðu málsins.
Framangreind gagnrýni forvarsmanna Inter, í garð Samkeppniseftirlitsins á því ekki við rök að styðjast. Þannig hafa erindi kvartenda verið tekin til skoðunar, þeim ítrekað verið gerð grein fyrir framgangi þeirra hjá eftirlitinu og eftirlitið átt í tíðum samskiptum við þá. Þá hafa orðið tafir á gagnaskilum af þeirra hálfu.
Rétt er jafnframt að vekja athygli á að aðilum máls er jafnan heimilt, telji þeir ástæðu til, að kæra drátt á afgreiðslu máls til áfrýjunarnefndar samkeppnismála, sbr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Aðildarfyrirtæki Inter hafa ekki nýtt sér þennan rétt sinn í málinu.