Fréttatilkynning vegna athugun Samkeppniseftirlitsins á sýningu leikja á HM
Vegna fjölmiðlaumfjöllunar um athuganir Samkeppniseftirlitsins á sýningu leikja í heimsmeistarakeppninni í knattspyrnu og vegna frétta um málið á vef Neytendasamtakanna, vill Samkeppniseftirlitið taka fram eftirfarandi:
Skömmu áður en útsendingar á leikjum í heimsmeistarakeppninni í fótbolta hófust bárust Samkeppniseftirlitinu erindi ásamt fjölda ábendinga í tengslum við tilboð Sýnar á áskrift að stöðinni á meðan á heimsmeistarakeppninni stendur. Samkeppniseftirlitið tók til athugunar hvort forsendur væru til þess að grípa til ákvörðunar til bráðabirgða í samræmi við 16. gr. samkeppnislaga. Með slíkri ákvörðun getur Samkeppniseftirlitið, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, rutt tímabundið úr vegi ástandi sem fer í bága við samkeppnislög.
Það var mat Samkeppniseftirlitsins að ekki væru forsendur til þess að taka bráðabirgðaákvörðun í málinu. Hins vegar tók Samkeppniseftirlitið málið til frekari athugunar og er nú leitað sjónarmiða og gagna frá málsaðilum. Óhjákvæmilega tekur meðferð slíks stjórnsýslumáls lengri tíma en svo að niðurstaða fáist áður en heimsmeistarakeppninni lýkur. Leiðir það af eðli málsins og reglum um meðferð stjórnsýslumála.