Fréttatilkynning - Samruni Lyfja og heilsu (DAC) og Lyfjavers ógiltur
Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfestir ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um ógildingu samruna á lyfjamarkaði
Með ákvörðun nr. 28/2006 frá 11. júlí sl. ógilti Samkeppniseftirlitið samruna lyfsölu- og lyfjaskömmtunarfyrirtækjanna DAC og Lyfjavers þar sem talið var að hann myndi raska samkeppni og skaða hagsmuni almennings. DAC er systurfélag lyfsölukeðjunnar Lyfja og heilsu. Samruninn hefði leitt til þess að tvær lyfsölukeðjur, Lyf og heilsa annars vegar og Lyfja hins vegar, hefðu rúmlega 80% allrar lyfjasmásölu í landinu. Taldi Samkeppniseftirlitið að Lyf og heilsa deildu sameiginlegri markaðsráðandi stöðu með Lyfju á smásölumarkaði lyfja. Það var mat Samkeppniseftirlitsins að sameiginleg markaðsráðandi staða Lyfja og heilsu og Lyfju gerði fyrirtækjunum kleift að samhæfa hegðun sína á markaðnum án þess að þurfa að taka tillit til keppinauta eða neytenda. Væru fyrirtækin þannig í stöðu til þess að takmarka samkeppni og hækka verð. Ef umræddur samruni hefði gengið eftir hefði þessi staða orðið enn alvarlegri í samkeppnislegu tilliti.
DAC og Lyf og heilsa kærðu ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem kvað upp sinn úrskurð í dag nr. 6/2006. Telur áfrýjunarnefnd að leitt hafi verið í ljós að umræddur samruni myndi raska samkeppni og því hafi verið rétt hjá Samkeppniseftirlitinu að ógilda hann. Staðfesti áfrýjunarnefndin því ákvörðun Samkeppniseftirlitsins.
Mikil samþjöppun hefur orðið á lyfsölumarkaðnum á síðustu árum. Samkeppniseftirlitið telur mjög mikilvægt að þessi samruni hafi verið stöðvaður og þar með unnið gegn frekari fákeppni á þessum mikilvæga markaði. Lyfjaver hefur verið öflugur keppinautur stóru lyfjakeðjanna og lagt áherslu á að bjóða lyf á lágu verði. Brotthvarf Lyfjavers af markaðnum hefði haft í för sér umtalsverða röskun á samkeppni og skaðað hag þeirra sem þurfa á lyfjum að halda. Samkeppniseftirlitið telur einnig að úrskurður áfrýjunarnefndar hafi talsvert fordæmisgildi og geti auðveldað Samkeppniseftirlitinu að vinna gegn skaðlegri fákeppni á ýmsum mörkuðum hér landi.
Sjá nánar úrskurð nr. 6/2006.