3.2.2011

Dómur Hæstaréttar Íslands í máli Samkeppniseftirlitsins gegn Icelandair

Icelandair_logo

Hæstiréttur hefur í dag fellt úr gildi dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Samkeppniseftirlitsins gegn Icelandair. Forsaga málsins er að í júní 2007 staðfesti áfrýjunarnefnd samkeppnismála ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr 11/2007 þess efnis að með kynningu og sölu á flugfargjöldum, svokölluðum Netsmellum að upphæð 16.900 kr., sem stóðu viðskiptavinum Icelandair ehf., til boða á flugleiðinni milli Keflavíkur og Kaupmannahafnar annars vegar og á flugleiðinni milli Keflavíkur og London hins vegar, hafi félagið misnotað markaðsráðandi stöðu sína og brotið gegn samkeppnislögum. Var þetta til þess fallið að veikja samkeppni frá Iceland Express. Var Icelandair gert að greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð 130 milljónir króna í ríkissjóð. Icelandair skaut úrskurði áfrýjunarnefndar til dómstóla.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 2. febrúar 2010 var staðfest sú niðurstöða áfrýjunarnefndar að Icelandair hafi verið markaðsráðandi stöðu og misnotað hana og þar með brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga. Héraðsdómur taldi hins vegar brotin ekki eins alvarleg og lagt var til grundvallar í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála og felldi úr gildi sektarákvörðun áfrýjunarnefndar.

Samkeppniseftirlitið taldi það ekki rétta niðurstöðu að fella niður sekt Icelandair og áfrýjaði þessum dómi héraðsdóms til Hæstaréttar. Leit eftirlitið svo á að ágallar hefðu verið málsmeðferð héraðsdóms og krafðist m.a. þess að dómur hans yrði ómerktur og málinu vísað aftur heim í hérað.

Hæstiréttur hefur í dag ómerkt dóm héraðsdóms þar sem of langur tími leið á milli aðalmeðferðar í málinu og dómsuppsögu. Kemur málið því aftur til efnislegrar meðferðar hjá héraðsdómi.