Alvarlegar samkeppnishindranir geta fylgt samrunum viðskiptabanka
Samþjöppun eykst á bankamarkaði - Mikilvægt að minnka aðgangshindranir og kostnað við flutning viðskipta á milli banka
Samkeppniseftirlitið hefur í dag gefið út umræðuskjal um samkeppni á bankamarkaði. Með því vill Samkeppniseftirlitið hvetja fjármálafyrirtæki og stjórnvöld til að gefa samkeppnismálum gaum við stefnumótun fjármálamarkaðarins og kynna sjónarmið sín um samruna banka.
Eitt af því sem ráða mun úrslitum við endurreisn íslensks atvinnulífs er það hvernig fjármálastarfsemi verður háttað hér á landi. Virk samkeppni á fjármálamarkaði er sérstaklega mikilvæg fyrir bæði atvinnulífið og neytendur. Hún stuðlar m.a. að atvinnuuppbyggingu og samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja.
Samkeppniseftirlitið telur að í stefnumótun fyrir fjármálamarkaðinn þurfi að koma í veg fyrir einsleitni í uppbyggingu og hugarfari og skapa jarðveg fyrir virkan markað og nýsköpun í greininni. Samkeppniseftirlitið geldur varhug við því að stærri viðskiptabankar kaupi eða yfirtaki smærri fjármálafyrirtæki og að hér myndist eða styrkist þægilegur markaður tveggja eða þriggja stærri banka sem búa ekki við hættu á utanaðkomandi samkeppni. Slík markaðsgerð er almenningi og viðskiptalífinu til tjóns.
Helstu niðurstöður skýrslunnar eru:
- Samþjöppun á bankamarkaði hefur aukist verulega frá árinu 2008 með fækkun fjármálafyrirtækja og yfirtöku stærri banka á innlánum sparisjóða. Reiknaður samþjöppunarstuðull (HHI) er tæp 2.700 stig um þessar mundir en stuðullinn náði ekki 2.000 stigum fyrir hrun. Svo mikil samþjöppun skapar hættu á samkeppnishömlum sem felast í samhæfðri hegðun keppinauta.
- Aðgangshindranir að bankamarkaði eru miklar og erfitt fyrir neytendur að skipta um banka. Samkeppniseftirlitið telur að nýta eigi það tækifæri sem uppstokkun í kjölfar hrunsins gefur til að auðvelda aðgengi að bankamarkaði og minnka kostnað við flutning viðskiptavina á milli banka. Slíkt eykur samkeppni og gerir minni keppinautum betur kleift að eflast.
- Bankakerfið er of dýrt miðað við núverandi umfang og hagræðing því nauðsynleg. Rekstrarkostnaður Arion banka, Íslandsbanka og Landsbanka hækkaði um 7,5 milljarða króna á milli áranna 2009 og 2010, eða um 12% að raungildi. Starfsmönnum fjölgaði um 200 á sama tíma.
- Ná verður fram hagræðingu með öðrum leiðum en samrunum. Samkeppniseftirlitið telur að mjög alvarleg samkeppnisvandamál geti fylgt samrunum viðskiptabanka, a.m.k. í þeim tilvikum þar sem einn eða fleiri stóru bankanna er aðili að slíkum samruna. Í því efni er rétt að benda á að hagræðing sem kann að leiða af samruna er sýnd veiði en ekki gefin. Meirihluti fræðigreina sem skrifaðar hafa verið um áhrif samruna banka benda til óverulegs hagræðis af samruna.
- Nauðsynlegt er að hafa í huga að aðstæður á fjármálamarkaði geta breyst hratt eins og dæmin sanna. Fjármálamarkaðurinn býr við mikla óvissu og gjaldeyrishöft og fjárhagslegur styrkur bankanna liggur enn ekki fyrir. Þá kunna róttækar breytingar að verða á skipan peningamála sem geta gerbreytt markaðinum.
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins:
„Það er öllum ljóst að nauðsynlegt er að hagræða í bankakerfinu. Vandinn liggur í því hvernig það skuli gert. Rannsóknir sýna að hagræðing við samruna banka er sýnd veiði en ekki gefin. Kjarni málsins er sá að stjórnendur banka þurfa fyrst og fremst að taka til hendinni heima fyrir.“
Samkeppniseftirlitið óskar eftir sjónarmiðum hagsmunaaðila og annarra áhugasamra fyrir 31. maí 2011.