Samkeppnin eftir hrun - Fréttatilkynning
Fjárhagsstaða margra stærri fyrirtækja er slæm en hefur farið batnandi frá hruni.
Rangir hvatar tefja endurreisn íslensks atvinnulífs.
Afleiðing þeirra er m.a. að endurskipulagning fyrirtækja gengur ekki nógu hratt, fyrirtæki koma oft of skuldsett út úr endurskipulagningu og mikil tortryggni og óvissa ríkir á mörkuðum. Nauðsynlegt er að bregðast við þessu.
Samkeppniseftirlitið birtir í dag skýrslu sína „Samkeppnin eftir hrun“. Í skýrslunni er greint frá rannsókn Samkeppniseftirlitsins á fjárhagsstöðu og fjárhagslegri endurskipulagningu 120 stórra fyrirtækja á völdum samkeppnismörkuðum. Þá er í skýrslunni tekin staða á ýmsum þeim verkefnum sem unnið hefur verið að og varða endurskipulagningu fyrirtækja og samkeppnisaðstæður á Íslandi eftir hrun.
Staða margra fyrirtækja er slæm en fer batnandi
Hrunið hefur haft mikil áhrif á samkeppni í einstökum atvinnugreinum og samkeppnisstöðu fyrirtækja. Fjárhagsleg endurskipulagning fyrirtækja, nauðasamningar og gjaldþrot leiða til breytinga á stöðu fyrirtækja innbyrðis. Þetta er óhjákvæmilegt. Brýnir samfélagslegir hagsmunir eru fólgnir í því að brugðist sé hratt við skuldavanda rekstrarhæfra fyrirtækja.
Bankar ráða yfir tæplega helmingi eignarhlutar á fyrirtækjum samkvæmt rannsókn Samkeppniseftirlitsins á 120 stórum fyrirtækjum á völdum samkeppnismörkuðum. Þá eru talin með fyrirtæki sem eru í mjög slæmri fjárhagslegri stöðu og ráða ekki örlögum sínum. Nánar tiltekið er hlutur banka 46%, einstaklinga 29%, skilanefnda 7%, lífeyrissjóða 7% og annarra 11%. Hlutur banka fór hæst í 68% strax eftir hrun. Staðan er því slæm en fer batnandi. Ástæða er því áfram til mikillar árvekni því samstaða ríkir um það að bankar séu óheppilegir eigendur að atvinnufyrirtækjum og margsskonar samkeppnisleg vandamál geta tengst slíku eignarhaldi banka.
Fjárhagsstaða tæplega helmings stærri fyrirtækja er mjög slæm að mati Samkeppniseftirlitsins en um fimmtungur fyrirtækja er í góðri stöðu. Tæplega þriðjungur fyrirtækja hefur lokið fjárhagslegri endurskipulagningu en sama hlutfall fyrirtækja telur sig ekki hafa þörf fyrir endurskipulagningu.
Vandi atvinnulífsins felst í of hægu ferli fjárhagslegrar endurskipulagningar fyrirtækja, óánægju með framkvæmd hennar og skorti á trausti og gagnsæi. Þá er fjárhagsstaða um helmings fyrirtækja sem lokið hafa fjárhagslegri endurskipulagningu engu að síður mjög slæm samkvæmt greiningu Samkeppniseftirlitsins.
Sú hætta er fyrir hendi að samkeppni minnki verulega til lengri tíma litið vegna þess að of skuldsett fyrirtæki hafa ekki þrótt til að keppa og nýja aðila skortir fjármagn til að komast inn á markaði þar sem aðgangshindranir eru miklar.
Rangir hvatar
Að mati Samkeppniseftirlitið eru nokkrir hvatar í kerfinu sem toga í ranga átt og tefja ferlið við endurskipulagningu fyrirtækja og endurreisn atvinnulífsins. Samandregið eru hinir röngu hvatar einkum þessir:
- „Umsýsluvandi“ (Freistnivandi I). Hann endurspeglast í því að þeir aðilar sem starfa við að leysa úr vandamálunum hafa af því talsverðar tekjur og byggja lifibrauð sitt á því. Þrátt fyrir góðan ásetning vinna hagsmunir þeirra af tekjuöflun og atvinnuöryggi gegn hagsmunum samfélagsins af hraðri úrlausn. Hér eiga í hlut skilanefndir, starfsmenn í úrlausnarferlum bankanna, starfsmenn viðkomandi fyrirtækja o.fl.
- „Stjórnunarvandi“ (Freistnivandi II). Hann felst í því að þeir sem stjórna atvinnufyrirtækjum undir yfirráðum banka venjast honum sem eiganda eða bakhjarli og búa ekki við nauðsynlegan aga við ákvörðunartöku í rekstri fyrirtækjanna. Hann getur líka falist í því að stjórnendur fyrirtækjanna hafi ekki nægilega hagsmuni af því að reksturinn gangi vel, þar sem þeir hafa jafnvel hug á að eignast sjálfir fyrirtækið og kaupa það af viðkomandi banka þegar fram í sækir, á sem lægstu verði.
- „Eigendavandi“. Hann felst í því að kröfuhafar bankanna eru oft í raun eigendur þeirra og hafa hagsmuni af því að fá eins mikið og mögulegt er út úr kröfum sem standa á fyrirtækjunum. Þeir hagsmunir eru í sjálfu sér eðlilegur þáttur í starfsemi banka, en lakara er ef skammtímahagsmunir eigenda banka af því að fá bættan skaða yfirskyggja langtímahagsmuni af því að byggja upp viðskiptasambönd og stuðla þannig að traustum grundvelli fyrirtækjareksturs og öflugu atvinnulífi. Hætta er á að margir kröfuhafar horfi til of skamms tíma í þessu efni þótt margir geri sér eflaust grein fyrir mikilvægi þess að ganga ekki of hart fram gegn viðskiptavinum framtíðarinnar.
- „Ákvörðunarvandi“. Hann felst í því að stjórnendur og starfsmenn bankanna vilja í ljósi reynslunnar forðast í lengstu lög að gera mistök og búa jafnframt við stöðuga gagnrýni vegna þeirra ákvarðana sem þeir taka um endurskipulagningu fyrirtækja. Þetta á einnig að mörgu leyti við um ákvarðanir stjórnvalda sem varða atvinnulífið. Þá höfðu stjórnendur banka a.m.k. framan af óskýrt umboð til ákvarðana.
- „Sanngirnisvandi“. Hann felst í hinni sterku kröfu um sanngirni og jafnræði við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja. Eins og nánar er rakið í skýrslunni getur áherslan á að vernda fyrirtæki fyrir neikvæðum afleiðingum þess að skuldum sé létt af keppinautum þeirra tafið og dregið úr nauðsynlegri hreinsun í skuldum fyrirtækja með góðan undirliggjandi rekstur. Þá ber að líta til þess að afar erfitt er að skilgreina hvað felst í sanngirni og jafnræði á þessu sviði þar sem erfiðleikar og aðstaða einstaka fyrirtækja getur verið mjög mismunandi.
Samkeppniseftirlitið telur að taka þurfi á þessum hvötum til að koma í veg fyrir stöðnun eins og varð í Japan í kjölfar bankakreppunnar í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar. Sá áratugur hefur gjarnan verið kallaður „týndi áratugurinn“ þar í landi. Vandinn fólst einkum í því að bankar lokuðu ekki á fyrirtæki með lán í vanskilum eða gripu til nauðsynlegrar endurskipulagningar heldur var lánstími framlengdur og fyrirgreiðslur auknar. Þau fyrirtæki sem svo var ástatt um hafa verið kölluð „uppvakningar“ (e. zombie firms). Þetta heiti hafa fyrirtækin fengið til að lýsa þeirri staðreynd að þau voru ekki aðeins afar skuldum hlaðin heldur einnig óskilvirk og óhagkvæm.
Í sjónarmiðum ýmissa aðila sem hafa tjáð sig við Samkeppniseftirlitið kemur fram mikil gagnrýni á siðferðisbrest í atvinnulífinu og athafnaleysi stjórnvalda. Má í því sambandi nefna kennitöluflakk án athugasemda eða afleiðinga, slaka framkvæmd útboðsstefnu og vanhöld á skilum ársreikninga til Ársreikningaskrár. Jafnframt ríkir mikil tortryggni í garð bankanna vegna þess sem talið er vera skortur á sanngirni og jafnræði. Við þessu þarf að bregðast þar sem neikvæð viðhorf og skortur á trausti í atvinnulífinu vinnur gegn bata.
Tillögur
Með hliðsjón af niðurstöðum skýrslunnar leggur Samkeppniseftirlitið áherslu á að beita eftirlitsheimildum sínum til að hraða þessu ferli. Þrennt skal nefnt í þessu sambandi:
- Tryggja þarf að raunveruleg yfirráð banka yfir fyrirtækjum séu uppi á borðum
- Settar verði skorður við beinu eignarhaldi með tímafrestum
- Eftirlit með arðsemismarkmiðum verði eflt
Samkeppniseftirlitið setur einnig fram eftirfarandi tillögur sem gætu aðstoðað við að leysa úr þessum vanda:
- Bankar og skilanefndir skýri skipulega og opinberlega frá endurskipulagningu stærri fyrirtækja til að vinna m.a. gegn þeirri tortryggni sem ríkir í atvinnulífinu
- Bankar skilji í reikningum sínum betur á milli rekstrar til frambúðar og endurskipulagningar fyrirtækja
- Stjórnvöld móti hvata sem vinna með markmiðum um að hraða endurreisn
- Stjórnvöld stofni til umræðuvettvangs með bönkum og fyrirtækjum
Sjá skýrslu Samkeppniseftirlitsins - Samkeppnin eftir hrun.