Áfrýjunarnefnd staðfestir að gamli Landsbankinn hafi brotið gegn samkeppnislögum en lækkar sektir
Í júlí sl. komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu í ákvörðun nr. 23/2011 að Landsbanki Íslands hf. (LÍ (gamli Landsbankinn)) hefði brotið gegn banni samkeppnislaga við því að samruni komi til framkvæmda áður en eftirlitið hefur heimilað hann.
Brot LÍ fólst í því að taka yfir sex félög, sem áður voru í eigu Bergeyjar eignarhaldsfélags ehf., og selja öll félögin, að einu undanskildu, til þriðja aðila. Þetta gerði LÍ áður en hann tilkynnti Samkeppniseftirlitinu um yfirtökur sínar á félögunum og um sölu á þeim. LÍ braut því gegn skyldu til að tilkynna um samruna skv. samkeppnislögum og banni við að framkvæma samruna áður Samkeppniseftirlitið fjallar um hann. Átti þetta sér stað á árunum 2009 og 2010. Samkeppniseftirlitinu varð kunnugt um þessa gerninga á árinu 2010.
LÍ skaut málinu til áfrýjunarnefndar og krafðist þess að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins yrði felld úr gildi þar sem bankinn hefði ekki haft yfirráð yfir þessum fyrirtækjum og því ekki brotið gegn samkeppnislögum. Þá hafi ákvörðun Samkeppniseftirlitsins verið ómálefnaleg og farið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.
Í úrskurði, sem birtur var í gær, kemst áfrýjunarnefnd samkeppnismála að þeirri niðurstöðu að LÍ hafi brotið gegn skýrum ákvæðum samkeppnislaga með því að tilkynna ekki um yfirtökuna á dótturfélögum Bergeyjar. Samkeppniseftirlitið hafði talið rétt að leggja á 40 mkr. sekt á LÍ en áfrýjunarnefnd telur að hæfileg sekt sé 7,5 mkr. Er nefndin ekki sammála því að rétt hafi verið við mat á sekt að horfa til vaxtatekna LÍ og telur að fjárhagslegur styrkur bankans sé ekki mikill. Þá hafði nefndin hliðsjón af sekt í eldra máli.
Bakgrunnsupplýsingar
Í apríl 2009 var gert samkomulag milli LÍ, Magnúsar Kristinssonar, Smáeyjar ehf. og tengdra félaga sem fól í sér að LÍ tæki yfir hlutabréf Bergeyjar eignarhaldsfélags ehf. í tilteknum félögum. Bergey eignarhaldsfélag ehf. var þá að fullu í eigu Smáeyjar ehf. Samkvæmt samkomulaginu yfirtók LÍ hlutabréf í eftirfarandi félögum:
- Bílaleigu Flugleiða ehf.
- Toyota á Íslandi hf.
- M. Kristinssyni ehf.
- Pizza-Pizza ehf.
- Sólningu Kópavogi ehf.
- Bergey fasteignafélagi ehf.
Kaupsamningar um yfirtöku LÍ á félögunum voru síðan gerðir þann 1. júlí 2009. Samkvæmt LÍ var yfirtakan liður í fullnustugerð á hendur fyrrnefndum aðilum. Félögin M. Kristinsson ehf., Sólning Kópavogi ehf. og Bergey fasteignafélag ehf. voru síðan öll seld eignarhaldsfélaginu Bifreiðar ehf. þann 4. ágúst 2009. Sama dag seldi LÍ jafnframt félagið Pizza Pizza ehf. til eignarhaldsfélagsins Pizzasmiðjunnar ehf. Bílaleiga Flugleiða var svo seld félaginu Norðurlöndin ehf. þann 26. febrúar 2010. Tilkynning LÍ til Samkeppniseftirlitsins um yfirtöku á dótturfélögum Bergeyjar eignarhaldfélags ehf. er dagsett 16. júní 2010.
Sjá nánar úrskurð áfrýjunarnefndar nr. 6/2011.