Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfestir ógildingu á yfirtöku Stjörnugríss á svínabúum
Í júlí sl. ógilti Samkeppniseftirlitið samruna sem fólst í yfirtöku Stjörnugríss á tilteknum eignum félaganna, sem fóru með rekstur svínabúanna Brautarholts og Grísagarðs. Svínabúin höfðu komist í eigu Arion banka eftir að fyrirtækin sem ráku þau urðu gjaldþrota. Var horft til þess að með kaupum Stjörnugríss á svínabúunum hefði fyrirtækið komist í markaðsráðandi stöðu á markaði fyrir svínarækt og styrkt markaðsráðandi stöðu sína á markaðnum fyrir slátrun á svínum. Þetta, ásamt styrkri stöðu samstæðunnar á eggjamarkaði, styrki einnig stöðu hennar gagnvart fóðurseljendum, kjötvinnslum og dagvöruverslunum, sbr. úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála nr. 1/2011. Taldi Samkeppniseftirlitið ekki sannað að skilyrði reglna um félag á fallanda fæti væru uppfyllt. Í þeim reglum felst að unnt er að heimila samruna sökum alvarlegra fjárhagslegra erfiðleika fyrirtækja.
Stjörnugrís og Arion banki kærðu ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og gerðu margvíslegar athugasemdir við málsmeðferð og niðurstöðu eftirlitsins. Með úrskurði áfrýjunarnefndar, sem birtur er í dag, er ákvörðun Samkeppniseftirlitsins staðfest. Telur nefndin að málsmeðferð þess hafi verið eðlileg. Einnig er það mat nefndarinnar að Stjörnugrís og Arion banki hafi ekki sýnt fram á að reglan um félag á fallanda fæti ætti við.
Sjá nánar ákvörðun nr. 27/2011 frá júlí s.l.
Sjá nánar úrskurð áfrýjunarnefndar nr. 7/2011.