29.2.2012

Héraðsdómur staðfestir brot Lyfja og heilsu á samkeppnislögum og 100 milljóna króna sektir

Mynd: Merki Lyf og heilsuMeð dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í dag er staðfestur úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála, þess efnis að Lyf og heilsa (L&h) hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína þegar fyrirtækið greip til aðgerða sem beindust gegn Apóteki Vesturlands. Að mati héraðsdóms voru brotin  „alvarleg, miðuðu að því að hindra innkomu nýrrar lyfjaverslunar á markað, sem stefndi sat áður einn að, og síðan að því að veikja hinn nýja aðila og raska samkeppni“. Hafnar héraðsdómur einnig kröfu um lækkun sekta.

Forsaga málsins er sú að Samkeppniseftirlitið hóf rannsókn á ætluðum brotum L&h með húsleit í september 2007.  Rannsóknin hófst í kjölfar ábendinga um að fyrirtækið hefði gripið til aðgerða til að hindra að Apótek Vesturlands (AV), sem þá var nýstofnað, næði að hasla sér völl á Akranesi.

Með ákvörðun nr. 4/2010 komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að L&h hefðu misnotað markaðsráðandi stöðu sína með skipulagðri atlögu gegn AV sem beinlínis hafði það að markmiði að raska samkeppni. Fólust aðgerðir L&h annars vegar í stofnun svonefnds vildarklúbbs sem var ætlað að tryggja að mikilvægir viðskiptavinir myndu ekki hefja viðskipti við AV. Hins vegar fólust aðgerðirnar í því sem L&h nefndu „baráttuafslætti“. Um var að ræða verulega afslætti á mikilvægum lyfjum og voru þeir aðeins í boði á Akranesi. Var þessum aðgerðum ætlað að koma AV út af markaðnum og senda skýr skilaboð til annarra aðila um að ekki borgi sig að reyna að keppa við L&h. Voru brotin talin alvarleg og var L&h gert að greiða 130.000.000 kr. stjórnvaldssekt.

L&h skaut ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og krafðist þess að hún yrði felld niður eða sektir lækkaðir verulega. Áfrýjunarnefnd staðfesti hins vegar þá niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins að L&h hefðu verið í markaðsráðandi stöðu og að aðgerðir fyrirtækisins hefðu falið í sér alvarleg brot á samkeppnislögum. Áfrýjunarnefndin taldi hæfilegar sektir kr. 100.000.000 kr. Þessi úrskurður hefur nú verið staðfestur í héraðsdómi.