6.3.2012

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála ógildir ákvörðun Samkeppniseftirlitsins vegna meintrar misnotkunar Véla og verkfæra ehf. á markaðsráðandi stöðu

Mynd: ASSA lykillÁfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur með nýjum úrskurði í dag fellt úr gildi ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 14/2009, þar sem Vélar og verkfæri ehf. voru sektuð um 15 m.kr. fyrir að misnota markaðsráðandi stöðu sína við sölu á efni til að framleiða höfuðlyklakerfi. Taldi Samkeppniseftirlitið að fyrirtækið hefði komið í veg fyrir að þjónustuaðilar höfuðlyklakerfa flyttu inn og seldu slík kerfi frá öðrum framleiðendum en ASSA í Svíþjóð. Var brotið talið alvarlegt enda hafi það haft áhrif á sölu á tilbúnum höfuðlyklakerfum beint til neytenda.

Áfrýjunarnefnd byggir ógildingu sína á ákvörðuninni á því að vafi sé á því hvernig skilja beri skilgreiningu Samkeppniseftirlitsins á markaði málsins. Telur hún sér ekki unnt að taka af skarið um hvernig skýra beri ákvörðunina að þessu leyti, en tekur fram að ekki sé í úrskurðinum tekin afstaða til efnisatriða málsins. Það verði gert ef málið komi að nýju til kasta nefndarinnar.

Úrskurður þessi kemur í framhaldi af dómi Hæstaréttar frá 1. desember 2011. Með þeim dómi felldi Hæstiréttur úr gildi fyrri úrskurð áfrýjunarnefndar í málinu þar sem sú niðurstaða nefndarinnar að breyta skilgreiningu Samkeppniseftirlitsins á markaði málsins hefði ekki verið nægjanlega rökstudd og rannsókn ófullnægjandi. Í dóminum kemur fram að Samkeppniseftirlitið hafi skilgreint markað málsins í ítarlega rökstuddu máli með samanburði á hinum ýmsu tegundum aðgangskerfa á markaði með tilliti til verðs og eiginleika og athugunar á því hvort staðganga væri á milli þessara vöru- og þjónustutegunda. Áfrýjunarnefnd hafi hins vegar hvorki gætt þeirrar skyldu sinnar við meðferð máls áfrýjanda að upplýsa málið nægjanlega í skilningi stjórnsýslulaga, né hafi áfrýjunarnefnd rökstutt niðurstöðu sína með þeim hætti sem áskilið er.

Samkeppniseftirlitið hefur nú til athugunar hvort forsendur séu til þess að taka málið upp að nýju eða vísa því að til dómstóla.