3.4.2012

Samkeppniseftirlitið leggur 440 mkr. sekt á Símann fyrir brot á samkeppnislögum

  • Mynd: Merki SímansLagðar eru 390 milljónir króna sektir á Símann fyrir misnotkun á markaðsráðandi stöðu á farsímamarkaði.
  • Lagðar eru 50 milljón króna sektir á Símann fyrir ranga og misvísandi upplýsingagjöf í málinu.

 

Samkeppniseftirlitið hefur haft til rannsóknar kæru Nova vegna verðlagningu Símans á farsímamarkaði. Í ákvörðun, sem er birt í dag, kemst eftirlitið að þeirri niðurstöðu að Síminn hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína og þar með brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga og 54. gr. EES-samningsins með því að beita keppinauta sína  samkeppnishamlandi verðþrýstingi.

Verðþrýstingur felst í aðalatriðum í því að markaðsráðandi fyrirtæki stjórnar framlegð á milli heildsölusstigs og smásölustigs í m.a. þeim tilgangi að gera nýjum keppinautum erfiðara fyrir að ná fótfestu á smásölumarkaði. Í slíku tilviki er viðkomandi fyrirtæki markaðsráðandi á heildsölustigi og starfar einnig á tengdum smásölumarkaði. Fyrirtækið selur í heildsölu mikilvæga vöru/þjónustu (sem er í þessu máli lúkning símtala í farsímaneti Símans) til annarra fyrirtækja sem nýta hana í starfsemi sinni á smásölumarkaði. Þar eiga fyrirtækin í samkeppni við smásöluhluta hins markaðsráðandi fyrirtækis, í þessu tilviki Símann. Brotið getur falist í óeðlilega hárri verðlagningu á heildsöluaðfanginu sem gerir rekstur keppinauta á smásölumarkaði óarðbæran eða dregur úr hagnaði þeirra og vinnur þar með gegn því að þeir geti keppt af krafti á smásölumarkaðnum, almenningi til hagsbóta.

Síminn var á árum áður í einokunarstöðu í fjarskiptum og sökum m.a. þess hefur fyrirtækið haft í viðskiptum langflesta farsímanotendur. Keppinautar Símans geta ekki starfað á farsímamarkaði nema viðskiptavinir þeirra geti hringt í viðskiptavini Símans. Til þess að það sé unnt þarf t.d. Nova að greiða Símanum fyrir lúkningu símtala sem byrja í kerfi Nova en enda í kerfi Símans. Lúkningargjaldið er þannig hluti af heildsöluverði símtalsins en smásöluverðið er það verð sem Nova innheimtir af sínum viðskiptavinum. Á stærstum hluta brotatímabilsins var þetta heildsöluverð Símans til keppinauta hærra en smásöluverð Símans á símtölum milli viðskiptavina í farsímaþjónustu fyrirtækisins (innankerfissímtöl). Þýddi þetta að hefði smásöludeild Símans þurft að greiða heildsöluhluta Símans sama heildsöluverð og keppinautarnir hefði hún tapað á hverju símtali.

Er því ljóst að keppinautar Símans gátu ekki verðlagt símtöl í farsímanet Símans, með sambærilegum hætti og innankerfissímtöl hjá Símanum án þess að verða fyrir tapi þar sem langflestir notendur voru í viðskiptum hjá Simanum. Þetta hefur m.a. leitt til þess að  Nova  hefur neyðst til að veita ókeypis símtöl innankerfis í farsímakerfi félagsins til að eiga kost á því að laða til sín viðskiptavini í samkeppni við Símann. Sú stefna hefur ekki verið sjálfbær enda hefur Nova verið rekið með miklu tapi fyrstu starfsár félagsins.

Þessi ólögmæta verðstefna Símans var til þess fallin að verja markaðsráðandi stöðu félagsins og hafði þær afleiðingar að skapa ójafnvægi í verðlagningu símtala á smásölumarkaði eftir því hvort þau voru innankerfis í sama farsímakerfi eða milli farsímakerfa. Gagnsæi í smásöluverði símtala er mjög takmarkað þar sem neytendum er ekki fyllilega ljóst hvort verið sé að hringja innankerfis eða milli farsímakerfa þar sem mínútuverð símtala getur verið meira en tvöfalt hærra en fyrir innankerfissímtöl. Ljóst er að á brotatímabilinu hafa fjarskiptafélög bæði hætt við að hefja hér starfsemi á farsímamarkaði auk þess sem  keppinautum hefur fækkað með samruna eftir viðvarandi taprekstur þeirra í samkeppni við Símann á viðkomandi markaði.

Umrædd brot Símans áttu sér stað á árunum 2001 til ársloka 2007 og teljast mjög alvarleg. Þá hefur Síminn áður brotið gegn samkeppnislögum og er í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins talið hæfilegt að leggja á fyrirtæki sekt að fjárhæð 390 mkr. Er það hæsta sekt sem lögð hefur verið á fyrirtæki hér á landi vegna misnotkunar á markaðsráðandi stöðu.

Röng og villandi upplýsingagjöf

Mál þetta hófst með erindi Nova á árinu 2008. Eftir að hafa kallað eftir upplýsingum frá Símanum í málinu birti Samkeppniseftirlitið Símanum andmælaskjal á síðar á árinu 2008 þar sem komist var að því frummati að Síminn hafi undirverðlagt símtöl innankerfis hjá félaginu. Eftir útgáfu andmælaskjalsins lagði Síminn hins vegar fram nýjar kostnaðarupplýsingar sem stönguðust verulega á við þær upplýsingar sem áður höfðu komið fram. Breytti þetta grundvelli málsins og kallaði á nýja rannsókn. Leiddi þetta til þess að Samkeppniseftirlitið sendi Símanum nýtt andmælaskjal á árinu 2010. Röng og villandi upplýsingagjöf Símans hefur því tafið meðferð málsins.

Rík lagaskylda hvílir á fyrirtækjum að veita Samkeppniseftirlitinu fullnægjandi og sannar upplýsingar og eftirlitið lítur það alvarlegum augum ef brotið er gegn henni. Sökum þessa telur Samkeppniseftirlitið nauðsynlegt í ákvörðun sinni að leggja á 50 mkr. sekt á Símann fyrir ranga og villandi upplýsingagjöf.

Bakgrunnsupplýsingar:

Eins og fyrr sagði varðar mál þetta lúkningu á símtölum sem hefjast í símkerfum keppinauta Símans en enda í farsímakerfi Símans. Undirliggjandi kostnaður við GSM símtöl í farsímanetum samanstendur í meginatriðum af tveimur kostnaðarþáttum, þ.e. kostnaði sem verður til við upphaf símtals annars vegar og kostnaði sem verður til við lúkningu símtals hins vegar. Kostnaður við upphaf símtals verður til er viðkomandi notandi slær inn símanúmer og þar til þau skilaboð eru móttekin í símstöð. Í viðkomandi símstöð er greint hvort móttakandi símtalsins er í sama farsímaneti og sá sem hringdi (innankerfissímtöl) eða í farsímaneti hjá öðru farsímafélagi. Kostnaður við lúkningu símtalsins verður til þegar merkið er flutt úr viðkomandi símstöð og tengt við það símanúmer sem hringt er í þannig að úr verður símtal. Síminn selur keppinautum sínum þessa lúkningu en án hennar geta viðskiptavinir þeirra ekki hringt í viðskiptavini Símans. Smásölumarkaðurinn er smásala á farsímaþjónustu til einstaklinga og fyrirtækja.

Þekkt er að markaðsráðandi fjarskiptafyrirtæki geti misnotað stöðu sína með verðþrýstingi (e. margin squeeze). Slík fyrirtæki, sem oft nutu ríkiseinokunnar á fjarskiptum, búa einatt yfir aðstöðu sem keppinautar á smásölumarkaði þurfa nauðsynlega að fá heildsöluaðgang að til þess að geta keppt við hið markaðsráðandi fyrirtæki í smásölu. Markaðsráðandi fyrirtæki hefur undir slíkum kringumstæðum bæði hvata og möguleika til þess að beita keppinautanna verðþrýstingi og minnka þar með samkeppni.

Þetta hefur sýnt sig í framkvæmd samkeppnislaga erlendis. Þann 29. mars sl. staðfesti undirréttur ESB þá ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB að leggja 151 milljón evra sekt á spænska fjarskiptafyrirtækið Telefónica vegna verðþrýstings á Internetmarkaðnum á árunum 2001-2006. Þann 5. desember 2011 lagði héraðsdómur Stokkhólms, að kröfu sænskra samkeppnisyfirvalda, 144 milljónir sænskra króna í sekt á fjarskiptafyrirtækið TeliaSonera vegna verðþrýstings á árunum 2000 til 2003.

Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins (127 bls.) nr. 7/2012