24.8.2012

Áfrýjunarnefnd telur Símann hafa framið alvarlegt brot á samkeppnislögum

Sekt að fjárhæð 390 milljónir króna staðfest

Mynd: Merki SímansSamkeppnisyfirvöld hafa haft til rannsóknar kæru Nova vegna verðlagningar Símans á farsímamarkaði. Í apríl sl. komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að Síminn hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína með því að beita keppinauta sína samkeppnishamlandi verðþrýstingi. Var sökum þessa lögð 390 mkr. sekt á Símann. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur, með úrskurði sem birtur er í dag, staðfest þessa niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins.

Verðþrýstingur felst í aðalatriðum í því að markaðsráðandi fyrirtæki stjórnar framlegð á milli heildsölusstigs og smásölustigs í m.a. þeim tilgangi að gera nýjum keppinautum erfiðara fyrir að ná fótfestu á smásölumarkaði. Í slíku tilviki er viðkomandi fyrirtæki markaðsráðandi á heildsölustigi og starfar einnig á tengdum smásölumarkaði. Fyrirtækið selur í heildsölu mikilvæga vöru/þjónustu (sem er í þessu máli lúkning símtala í farsímaneti Símans) til annarra fyrirtækja sem nýta hana í starfsemi sinni á smásölumarkaði. Þar eiga fyrirtækin í samkeppni við smásöluhluta hins markaðsráðandi fyrirtækis, í þessu tilviki Símann. Brotið getur falist í óeðlilega hárri verðlagningu á heildsöluaðfanginu sem gerir rekstur keppinauta á smásölumarkaði óarðbæran eða dregur úr hagnaði þeirra og vinnur þar með gegn því að þeir geti keppt af krafti á smásölumarkaðnum, almenningi til hagsbóta.

Að mati áfrýjunarnefndar samkeppnismála er brot Símans alvarlegt í ljósi yfirburðarstöðu Símanns og „hvernig hann beitti henni til að láta samkeppnisaðila og viðskiptavini þeirra í raun greiða fyrir að hann gæti haft hærri framlegð úr sínum rekstri og/eða viðhéldi markaðsstöðu með lægra verði til eigin viðskiptamanna“, eins og segir í úrskurði nefndarinnar. Vegna alvarleika brota Símans taldi áfrýjunarnefnd ekki ástæðu til þess að fallast á kröfur fyrirtækisins um niðurfellingu eða lækkun á sekt.

Samkeppniseftirlitið taldi í ákvörðun sinni rétt að leggja 50 mkr. sekt á Símann vegna rangrar og villandi upplýsingagjafar við rannsókn málsins. Í úrskurði áfrýjunarnefndar er tekið undir það að upplýsingagjöf Símans hafi verið ónákvæm og misvísandi. Hins vegar taldi áfrýjunarnefnd ekki hafið yfir vafa að um hafi verið að ræða brot með þeim hætti að varði viðurlögum og felldi því niður umrædda sekt. Áfrýjunarnefnd tekur fram að fyrirtækjum sé skylt að veita Samkeppniseftirlitinu réttar upplýsingar og óheimilt sé að afvegaleiða samkeppnisyfirvöld.

Sjá nánar úrskurð áfrýjunarnefndar.