19.11.2012

Samkeppniseftirlitið beinir því til atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra að draga úr samkeppnishindrunum í sjávarútvegi

Ekki forsendur til íhlutunar á grundvelli samkeppnislaga

Fiskiskip í höfnSamkeppniseftirlitið hefur í dag beint áliti (nr. 2/2012) til atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, þar sem fjallað er um samkeppnisstöðu annars vegar útgerða sem ekki stunda fiskvinnslu og hins vegar fiskvinnslufyrirtækja sem ekki stunda jafnframt veiðar á sjávarafla, gagnvart lóðrétt samþættum útgerðum sem bæði stunda veiðar og vinnslu.

Samkeppnishindranir sem leiða af umræddum aðstöðumun felast annars vegar í því að það er hvati fyrir lóðrétt samþætt útgerðarfélög til að gefa upp sem lægst verð á afla í innri viðskiptum á milli útgerðarhluta og vinnsluhluta fyrirtækisins. Eftir því sem verð á aflanum sem seldur er til fiskvinnslu í eigu útgerðarfyrirtækis er lægra þeim mun lægri verður launakostnaður viðkomandi útgerðar og  hafnargjöld af lönduðum afla. Bæði aflahlutdeild sjómanna og hafnargjöld miðast við uppgefið aflaverðmæti. Af framangreindu leiðir einnig að minni sjávarafli fer um fiskmarkaði en ella og verðmyndun á mörkuðunum kann því að vera skekkt. Hins vegar felst ákveðin samkeppnishindrun í því að samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða er einungis heimilt að framselja aflaheimildir á milli aðila sem eiga og reka fiskiskip. Sú tilhögun veldur því að aðilar sem stunda fiskvinnslu en enga útgerð eru í verri aðstöðu en lóðrétt samþætt útgerðarfélög til að verða sér út um hráefni.

Í álitinu er mælst til þess að ráðherra beiti sér fyrir því að dregið verði úr þeim samkeppnislegu vandamálum sem leiða af lagaumhverfi sjávarútvegs að þessu leyti. Að mati Samkeppniseftirlitsins eru að minnsta kosti fjórar leiðir færar til að draga úr umræddum samkeppnishindrunum. Í fyrsta lagi væri unnt að beita sérstökum milliverðlagningarreglum. Milliverðlagningarreglur hafa það að markmiði, í þessu tilviki, að verðlagning í innri viðskiptum á milli útgerðar- og fiskvinnsluhluta lóðrétt samþættrar útgerðar verði eins og um viðskipti milli tveggja óskyldra aðila sé að ræða. Í öðru lagi væri unnt að koma í veg fyrir að skip útgerðar sem ekki er samþætt greiði hlutfallslega hærri hafnargjöld með því að miða aflagjöld hafna við önnur hlutlæg viðmið, t.d. landað magn eða fiskverð sem væri ákveðið af óháðum opinberum aðila. Í þriðja lagi er lagt til að ráðherra breyti hinu lögákveðna fyrirkomulagi laga um Verðlagsstofu skiptaverðs þess efnis að útgerðarmenn komi með beinum hætti að ákvörðun um svokallað Verðlagsstofuverð sem útgerðir notast við í innri viðskiptum á milli útgerðarhluta og fiskvinnsluhluta fyrirtækjanna. Loks er lagt til að heimildir til kvótaframsals verði auknar en slík breyting væri til þess fallin að jafna aðstöðumun fiskvinnslna án útgerðar gagnvart fiskvinnslu samþættra útgerða til að verða sér út um hráefni til vinnslunnar.
 
Þá hefur Samkeppniseftirlitið samhliða birt ákvörðun nr. 28/2012, Kvörtun Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda vegna lóðrétt samþættrar útgerðar. Í ákvörðuninni er komist að þeirri niðurstöðu að ekki séu forsendur til að kveða á um fjárhagslegan aðskilnað veiða og vinnslu á grundvelli 14. gr. samkeppnislaga, enda séu skilyrði til þess ekki uppfyllt, líkt og samtökin héldu fram í málinu.  Jafnframt er það niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að samtökin hafi ekki fært fyrir því fullnægjandi rök að umrædd útgerðarfélög hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína, sameiginlega eða hvert og eitt, né heldur rökstutt nægjanlega að fyrirtækin séu í markaðsráðandi stöðu. Þá leiddi rannsókn Samkeppniseftirlitsins ekki í ljós að fyrirtækin hafi brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga með ólögmætu samráði.

Rannsókn málsins varð hins vegar til þess að Samkeppniseftirlitið beindi fyrrgreindu áliti til atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra.