Dómur Hæstaréttar í samráðsmáli olíufélaganna
Úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála stendur og máli olíufélaganna vísað frá dómi
Í dag hefur Hæstiréttur Íslands kveðið upp dóm í samráðsmáli Olíuverslunar Íslands hf., Skeljungs hf. og Kers hf. (áður Olíufélagið hf.). Í niðurstöðu Hæstaréttar felst að máli félaganna er vísað frá héraðsdómi. Með dómi sínum frá 22. mars 2012 felldi Héraðsdómur Reykjavíkur úr gildi úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála frá 31. janúar 2005 um álagningu stjórnvaldssekta, samtals að fjárhæð 1,5 milljarði kr, á félögin vegna langvarandi samráðs þeirra. Dómur Hæstaréttar í dag hefur þau áhrif að úrskurður áfrýjunarnefndar um sektir stendur.
Forsaga málsins er sú að samkeppnisráð tók ákvörðun þann 28. október 2004 og komst að þeirri niðurstöðu að Olíuverslun Íslands, Skeljungur og Olíufélagið (nú Ker hf.) hefðu framið alvarleg brot á samkeppnislögum. Samkeppnisráð lagði verulegar sektir á félögin. Þau kærðu ákvörðun samkeppnisráðs til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem kvað upp úrskurð 31. janúar 2005. Með þeim úrskurði lauk málsmeðferð samkeppnisyfirvalda.
Áfrýjunarnefnd staðfesti í öllum aðalatriðum niðurstöðu samkeppnisráðs um brotin en lækkaði sektir og taldi hæfilegt að þær næmu samtals 1,5 milljarði kr. Umrædd brot félaganna eru umfangsmestu samráðsbrot sem upprætt hafa verið hér á landi og ullu þau almenningi, atvinnulífinu og opinberum aðilum tjóni.
Á árinu 2005 skutu félögin úrskurði áfrýjunarnefndar til Héraðsdóms Reykjavíkur. Fyrir héraðsdómi gerði Samkeppniseftirlitið athugasemdir við málatilbúnað þeirra og beindi því til héraðsdóms hvort vísa bæri málinu frá dómi. Málareksturinn í héraði tók afar langan tíma í héraði, einkum vegna gagnaöflunar í formi matsgerða sem félögin töldu nauðsynlegt að ráðast í.
Í dómi Héraðsdóms frá 22. mars 2012 var staðfest að félögin höfðu með sér ólögmætt samráð og brutu gegn samkeppnislögum en úrskurður áfrýjunarnefndar var þrátt fyrir það felldur úr gildi vegna þess að dómurinn taldi að brotið hefði verið á andmælarétti félaganna. Samkeppniseftirlitið gat ekki fallist á þá niðurstöðu og áfrýjaði málinu til Hæstaréttar sem kvað upp sinn dóm í dag.
Máli félaganna er vísað frá héraðsdómi vegna verulegra galla á málatilbúnaði þeirra. Að mati Hæstaréttar er ágallinn það alvarlegur að hann varðar frávísun málsins í heild sinni frá dómstólum. Þetta dómsmál félaganna er því ónýtt og framangreindur úrskurður áfrýjunarnefndar stendur því óhaggaður.