Fréttatilkynning - Sala Símans á niðurgreiddum farsímum sem einungis var unnt að nota í farsímaþjónustu Símans var brot gegn samkeppnislögum
Og fjarskipti hf. (nú Vodafone) báru upp tvær kvartanir við samkeppnisyfirvöld síðla árs 2004 yfir aðgerðum Landssíma Íslands hf. (nú Símans hf.) á markaði fyrir farsímaþjónustu.
Annars vegar var kvartað yfir því að Síminn hefði hringt í þá viðskiptavini sína, sem óskað höfðu eftir númeraflutningi til Vodafone, og boðið þeim ýmis sérkjör gegn því að þeir féllu frá númeraflutningi. Einnig var kvartað yfir því að þegar beiðnir um númeraflutninga hafi tekið að berast hafi nokkuð verið um að viðskiptavinir óskuðu eftir flutningi til Símans vegna þess að þeir hefðu keypt GSM farsíma hjá Símanum á niðurgreiddu verði sem voru læstir í kerfi Símans. Taldi Vodafone að framangreindar markaðsaðgerðir Símans væru brot á banni 11. gr. samkeppnislaga við misnotkun á markaðsráðandi stöðu.
Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins sem birt var 30. apríl kemur fram það mat að gögn og upplýsingar sem fyrir liggja bendi til þess að tilboð Símans hafi verið viðbrögð við aðgerðum Vodafone á markaðnum. Ekki verði annað séð en að umræddar aðgerðir Símans hafi verið hóflegar auk þess að vera tímabundnar. Er því ekki unnt að líta svo á að aðgerðir Símans hafi að þessu leyti brotið gegn samkeppnislögum.
Hins vegar kvartaði Vodafone yfir því að Síminn hefði um nokkurt skeið boðið til sölu GSM farsíma á niðurgreiddu verði sem voru læstir í farsímakerfi Símans. Taldi Vodafone að niðurgreiðslur þessar fælu í sér skaðlega undirverðlagningu og ólögmæta samtvinnun sem væri misnotkun Símans á markaðsráðandi stöðu fyrirtækisins.
Með vísan til gagna og upplýsinga sem var aflað er það niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að Síminn hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína með því að niðurgreiða læsta GSM farsíma í sitt eigið farsímakerfi á árunum 2003 og 2004. Aðgerðir þessar voru til þess fallnar að viðhalda eða styrkja stöðu Símans með óeðlilegum hætti á markaðnum fyrir GSM farsímaþjónustu. Einnig er ljóst að aðgerðirnar styrktu stöðu Símans í sölu á GSM farsímum. Samkvæmt framansögðu er það mat Samkeppniseftirlitsins að Síminn hafi brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga með umræddri háttsemi.
Ákvörðun nr. 17/2007.