27.3.2013

Brot Tæknivara ehf. og Hátækni ehf. á 10. gr. samkeppnislaga

SnjallsímiSamkeppniseftirlitið hefur lokið með ákvörðun máli er laut að brotum Tæknivara ehf. og Hátækni ehf. á 10. gr. samkeppnislaga. Tildrög málsins voru þau að í apríl 2010 framkvæmdi Samkeppniseftirlitið húsleit hjá Skiptum hf. og dótturfélögum þess, Símanum hf. og Tæknivörum ehf. í tengslum við rannsókn í öðru máli sem beindist að rannsókn á ætluðum brotum Símans á banni 11. gr. samkeppnislaga farsímamarkaði . Það mál hefur verið til lykta leitt, sbr. ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 6/2013, Breytingar á skipulagi Skiptasamstæðunnar og aðrar aðgerðir til þess að efla samkeppni á fjarskiptamarkaði. 

Á grundvelli gagna sem fundust í fyrrgreindri leit var framkvæmd leit hjá Hátækni ehf. þann 7. maí 2010. Var þetta gert sökum gruns um ólögmætt samráð milli Hátækni og Tæknivara á heildsölumarkaði fyrir sölu á farsímum. Fólust brotin í gerð fimm samninga um viðskipti með farsíma sem gerðir voru á rannsóknartímabili málsins.

Í kjölfar húsleitanna snéru Skipti og Tæknivörur sér til Samkeppniseftirlitsins og óskuðu eftir því að veita liðsinni við að upplýsa málið. Í kjölfarið var gerð sátt um lyktir málsins við Skiptasamstæðuna í júlí 2010. Féllust Skipti á að greiða 400 milljónir kr. sektir, selja frá sér Tæknivörur og hlíta öðrum tilteknum fyrirmælum til að tryggja samkeppni. Gerð var grein fyrir sáttinni við Skipti með frétt á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins þann 9. júlí 2010, og var málinu þar með lokið gagnvart Skiptum.

Hátækni hefur nú einnig gert sátt við Samkeppniseftirlitið um lyktir málsins. Greiðir félagið 50 milljón kr. sekt vegna málsins. Telst málinu þar með lokið. Nánar er fjallað um málið í ákvörðun nr. 7/2013.