22.4.2013

Tilmæli til Umhverfisstofnunar vegna kynningar á umhverfismerkjum

Svanurinn - UmhverfisvottunarmerkiSamkeppniseftirlitið hefur í dag birt ákvörðun nr. 9/2013, Kvörtun Íslensk-Ameríska verslunarfélagsins vegna kynningarstarfsemi Umhverfisstofnunar á umhverfismerkjum. Í ákvörðuninni beinir Samkeppniseftirlitið þeim tilmælum til Umhverfisstofnunar að stofnunin setji sér verklagsreglur um kynningu á umhverfismerkjum með það að leiðarljósi að framleiðendum vottaðra vöru sé ekki mismunað.

Rannsókn málsins hófst í kjölfar þess að Samkeppniseftirlitinu barst erindi frá Íslensk-Ameríska verslunarfélaginu hf. (ÍSAM). Í erindinu var farið fram á að Samkeppniseftirlitið myndi grípa til aðgerða samkvæmt b. lið 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 vegna meintrar samkeppnishamlandi háttsemi Umhverfisstofnunar. Kvörtun ÍSAM sneri í fyrsta lagi að verkefni Umhverfisstofnunar „ágætis byrjun“ þar sem nýbökuðum foreldrum eru veittar upplýsingar um ágæti vara sem vottaðar hafa verið með samnorræna umhverfismerkinu Svaninum og jafnframt afhentar prufur af tilteknum vottuðum vörum. Í öðru lagi sneri kvörtun ÍSAM að almennri kynningarstarfsemi Umhverfisstofnunar á Svansmerkinu og Svansvottuðum vörum. Taldi ÍSAM að með ofangreindu væri stofnunin að niðurgreiða markaðsstarf keppinauta fyrirtækisins með ólögmætum hætti.  

Í ákvörðuninni er fjallað um lagaumhverfi umhverfismerkja og tengsl umhverfismerkja og samkeppnislaga. Komist er að þeirri niðurstöðu að umhverfismerki með valkvæðri aðild, sem rekin eru af sjálfstæðum aðilum og á hlutlægum forsendum raski ekki samkeppni í skilningi samkeppnislaga. Þvert á móti eru slík kerfi til þess fallin að skapa sérstaka eftirspurn um eiginleika vöru og þjónustu sem neytendur myndu annars ekki koma auga á án verulegs tilkostnaðar. Þá er slík umhverfisvottun einnig til þess fallin að skapa sérstakan markað um eiginleika vöru sem framleidd er með umhverfisvænum hætti og stuðlar þannig að umhverfisvernd.

Var það mat Samkeppniseftirlitsins að almenn kynningarstarfsemi Umhverfisstofnunar á umhverfismerkjum og framkvæmd verkefnisins „ágætis byrjunar“ í þessu tilviki gæfi ekki tilefni til þess að eftirlitið beitti heimild b. liðar 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga í málinu. Samkeppniseftirlitið beinir hins vegar tilmælum til Umhverfisstofnunar um að stofnunin setji sér verklagsreglur um kynningu á umhverfismerkjum með það að leiðarljósi að framleiðendum vottaðra vöru sé ekki mismunað.