5.6.2013

Samkeppniseftirlitið hefur markaðsrannsókn á eldsneytismarkaðnum

Bensíni dælt á bílSamkeppniseftirlitið hefur ákveðið að hefja markaðsrannsókn á íslenska eldsneytismarkaðnum. Markaðsrannsókn er nýtt form rannsóknar, sem felur í sér athugun á því hvort grípa þurfi til aðgerða gegn aðstæðum eða háttsemi sem koma í veg fyrir, takmarka eða hafa skaðleg áhrif á samkeppni almenningi til tjóns. Byggir rannsóknin á c-lið 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga, en ákvæðið heimilar Samkeppniseftirlitinu að grípa til ýmis konar aðgerða til að ryðja úr vegi samkeppnishindrunum, þótt þær stafi ekki af brotum á samkeppnislögum. Rannsókn af þessu tagi er m.a. hagfræðileg greining á samkeppni á tilteknum markaði, eða hlutum hans, og er því gott tæki til að fá heildaryfirsýn yfir samkeppnislegar aðstæður á markaði. Um framkvæmd markaðsrannsókna Samkeppniseftirlitsins vísast til reglna um markaðsrannsóknir Samkeppniseftirlitsins nr. 490/2013 og umræðuskjals um markaðsrannsóknir Samkeppniseftirlitsins nr. 2/2012.

Ákvörðun um markaðsrannsókn á eldsneytismarkaði er byggð á gögnum og upplýsingum sem aflað hefur verið í tengslum við fyrri athuganir, erindi og ábendingar. Þá átti Samkeppniseftirlitið fundi með aðilum á markaðnum síðasta haust í því skyni að afla nýjustu upplýsinga um samkeppnisaðstæður.

Eldsneytisverð er hátt á Íslandi

Samkeppniseftirlitið áætlar að íslensk heimili hafi keypt bensín og díselolíu fyrir um 42 milljarða króna á árinu 2011. Ef bensín- og díselverð, án skatta og annarra opinberra gjalda, á árunum 2005-2011 er miðað við vegið meðalverð í aðildarríkjum Evrópusambandsins kemur í ljós að verð á bensíni á Íslandi var um 20% hærra og verð díselolíu um 15% hærra. Verð bensíns og díselolíu er að jafnaði með því hæsta sem þekkist í samanburði við aðildarríki Evrópusambandsins. Smæð og landfræðileg einangrun kann að sjálfsögðu að hafa áhrif á eldsneytisverð hér á landi. Þeim mun mikilvægara er að samkeppni sé ekki raskað vegna samkeppnishamlandi aðstæðna á markaðnum eða háttsemi þeirra fyrirtækja sem starfa á honum, auk þess sem mikilvægt er að framleiðsluþættir viðkomandi markaðar séu nýttir á sem hagkvæmastan hátt.

Samkeppnishamlandi aðstæður eða háttsemi

Í tengslum við rannsóknina hefur Samkeppniseftirlitið gefið út rannsóknaráætlun sem felur í sér áform um tilhögun og afmörkun rannsóknarinnar. Kann hún að breytast eftir því sem rannsókninni vindur fram. Þær aðstæður eða háttsemi sem Samkeppniseftirlitið telur að geti komið veg fyrir, takmarkað eða haft skaðlegt áhrif á samkeppni á íslenska eldsneytismarkaðnum og rannsaka þurfi frekar eru m.a. eftirfarandi atriði:

  • Sú aðgangs- og vaxtarhindrun sem getur falist í þeim mikla kostnaði sem fylgir því að reisa birgðastöð. Þessi staðreynd getur valdið því að innkoma nýrra aðila inn á afmarkaða landfræðilega markaði getur verið erfið.
  • Sú aðgangs- og vaxtarhindrun sem getur falist í því að félögin sem eiga olíubirgðastöðvar á Íslandi, beint eða óbeint; Atlantsolía, N1, Olís og Skeljungur, eru lóðrétt samþætt fyrirtæki er reka einnig bensínstöðvar (á smásölustigi) og geta þ.a.l. haft lítinn hvata til þess að selja eldsneyti í heildsölu til nýrra aðila á markaðnum sem stefna að því að keppa við þau á smásölustiginu.
  • Stefna Reykjavíkurborgar og e.t.v. annarra sveitarfélaga að ekki verði reistar nýjar bensínstöðvar nema samsvarandi fjöldi verði lagður niður í staðinn, án þess að tryggt sé að lóðir sem úthlutað hefur verið og byggingar geti skipt um hendur og þannig auðveldað nýjum aðilum að hefja starfsemi og smærri aðilum að stækka. Skipulagshindranir af þessu tagi geta valdið því að nýir aðilar komist hvorki inn á markaðinn né að þeir aðilar sem þar eru fyrir geti aukið hlut sinn með því að fjölga sölustöðum.
  • Samstarf, eignarhald og stjórnunartengsl þeirra fyrirtækja sem starfa á eldsneytismarkaðnum. Rannsaka þarf að hvaða leyti núverandi samstarf milli þeirra fyrirtækja sem starfa á markaðnum, s.s. í gegnum birgðahald og dreifingu,  getur verið samkeppnishamlandi auk þess sem vega þarf og meta hvort hagkvæmnissjónarmið geti réttlætt samstarfið miðað við núverandi markaðsaðstæður.
  • Hvort verðbreytingar á smásöluverði eldsneytis í kjölfar breytinga á innkaupsverði séu ósamhverfar, þ.e. að smásöluverð breytist ekki jafn mikið í kjölfar hækkunar og lækkunar á innkaupsverði.
  • Hlutverk og starfshættir Flutningsjöfnunarsjóðs á markaðnum, sbr. lög nr. 103/1994 um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara. Kanna þarf áhrif sjóðsins á samkeppni, þ.á m. miðlun hans á upplýsingum til keppinauta á markaði.
  • Hvort smásölumarkaðurinn fyrir eldsneyti á Íslandi beri einkenni þess að þegjandi samhæfing (e. tacit coordination/collusion) þeirra fyrirtækja er starfa á markaðnum geti verið til staðar. Í þessu sambandi er litið til fákeppnisaðstæðna og einsleitni vöru, mikils verðgagnsæis sem auðveldi keppinautum mat á áhrifum samkeppni og fleiri atriða.

Ráðgjafahópur skipaður

Í samræmi við 5. gr. reglna um markaðsrannsóknir Samkeppniseftirlitsins hefur stjórn Samkeppniseftirlitsins skipað ráðgjafahóp en hlutverk hans er að veita faglega ráðgjöf og aðstoð vegna rannsóknarinnar. Ráðgjafahópinn skipa:

  • Daði Már Kristófersson, dósent við Hagfræðideild Háskóla Íslands.
  • Þorkell Helgason, stærðfræðingur og fyrrverandi Orkumálastjóri.

Áætluð birting frummatsskýrslu um mitt ár 2014

Á  fyrri hluta árs 2014 gerir Samkeppniseftirlitið ráð fyrir því að upplýsingaöflun og mati eftirlitsins á gögnum verði lokið og birt verði svokölluð frummatsskýrsla um mitt sama ár. Í henni verður m.a. tekin afstaða til þess hvort Samkeppniseftirlitið telji að taka þurfi íþyngjandi ákvörðun í kjölfar markaðsrannsóknarinnar.