Stöðva þarf áform um einokun í áætlunarakstri milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og Reykjavíkur
- Í dag hefur Samkeppniseftirlitið beint áliti nr. 1/2013 til innanríkisráðherra og Vegagerðarinnar um alvarlegar samkeppnishindranir sem felast í einkaleyfi sem Vegagerðin hefur veitt Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS) til þess að sinna áætlunarakstri á svæðinu, þar á meðal á milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar (FLE) og Reykjavíkur.
- Áður hafði Samkeppniseftirlitið komist að þeirri niðurstöðu að það hefði ekki lagalegar forsendur til þess að stöðva með bindandi hætti samninga SSS, sem ætlað er að koma á einokun á áætlunarleiðinni.
- Álit þetta kemur í framhaldi af kvörtunum Kynnisferða, Samtaka atvinnulífsins og Samtaka ferðaþjónustunnar.
Í álitinu er í ljós leitt að breytingar sem gerðar voru í lok árs 2011 á lögum um fólksflutninga og farmflutninga, raska að óbreyttu samkeppni í fólksflutningum með alvarlegum hætti, almenningi og ferðaþjónustu til tjóns. Umræddar breytingar höfðu þann tilgang að skapa samtökum sveitarfélaga aðstæður til þess að skipuleggja almenningssamgöngur innan og milli byggðarlaga á sem skilvirkastan og hagkvæmastan hátt. Með útfærslu hinna nýju laga voru hagsmunir almennings af skilvirkri samkeppni í fólksflutningum hins vegar fyrir borð bornir og ferðaþjónustu á Íslandi um leið bakað alvarlegt tjón.
Þessar alvarlegu samkeppnishindranir koma fram í einkaleyfi sem Vegagerðin hefur veitt SSS til þess að sinna áætlunarakstri á svæðinu, þar á meðal áætlunarleiðinni milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar (FLE) og Reykjavíkur. Útboð þar sem SSS hefur í hyggju að koma á einokun í áætlunarakstri á þeirri leið ber þess ekki síður vitni. Þessi framkvæmd er grundvölluð á fyrrgreindum lögum um fólksflutninga og farmflutninga, nr. 73/2001, sbr. breytingar á þeim sem gerðar voru með lögum nr. 162/2011.
Samkeppni eytt og einokun komið á
Í álitinu er rakið að samkeppni hefur ríkt í áætlunarakstri á leiðinni milli FLE og Reykjavíkur frá árinu 2011. Frá því að sú samkeppni komst á hefur farþegum sem nota flugrútu fjölgað um 66%, sem er langt umfram fjölgun farþega sem fara um Keflavíkurflugvöll. Samkeppnin hefur einnig leitt til þess að fargjaldið á leiðinni hefur ekki hækkað þrátt fyrir hækkun rekstrarkostnaðar, en áður en samkeppni komst á hækkaði fargjaldið reglulega í samræmi við verðlagsbreytingar. Þá eru ferðir tíðari og áfangastaðir í Reykjavík fleiri eftir að samkeppni komst á. Fyrir liggur að þau rök sem færð hafa verið fyrir mikilvægi fyrirhugaðrar einokunar, s.s. að tryggja akstur utan álagstíma, standast ekki skoðun.
Í útboði SSS á áætlunarleiðinni fólst að samkeppni yrði eytt og einokun komið á. Í útboðinu fólst ekki að tilboðsgjafar byðu sem lægst verð til farþega eða tækju að sér aksturinn á sem hagkvæmastan hátt. Þannig var ekki gert ráð fyrir því að tilboðsgjafar byðu tiltekna upphæð fyrir flutningana heldur skyldu þeir bjóða í hlutfallslega þóknun af fargjaldi sem ákveðið hafði verið 1.950 kr. Hagstæðasta tilboð gerði ráð fyrir því að í hlut SSS kæmi ríflega 60% hvers farmiða. Gera má ráð fyrir að heildartekjur sambandsins af þessu nemi a.m.k. ríflega hálfum milljarði, eða u.þ.b. tvöfalt hærri upphæð en Vegagerðin veitir í styrki til samtaka sveitarfélaga á landinu öllu.
Hvatar SSS með útboðinu hafa samkvæmt framansögðu verið fólgnir í því að afla SSS hámarkshlutdeildar af upphæð fargjalds á áætlunarleiðinni, en hagsmunum þeirra sem nýta þurfa þjónustuna er í engu sinnt. Viðbúið er að fargjöld hækki eftir að einokun verður komið á, enda hafa samningsaðilar beina fjárhagslega hagsmuni af því.
Ekkert kostnaðarmat fór fram
Ámælisvert er einnig að við samningsgerð Vegagerðarinnar og SSS um einkaleyfi til almenningssamgangna á svæðinu voru áhrif samningsins á samkeppni ekki metin, ekki síst í ljósi þeirrar umfjöllunar sem átt hafði sér stað við meðferð Alþingis á heimildinni. Þá var ekkert kostnaðarmat framkvæmt á þessari eða öðrum áætlunarleiðum og þar af leiðandi ekki nákvæmlega metin þörf fyrir opinber fjárframlög til að sinna almenningssamgöngum á svæðinu.
Við meðferð Alþingis á frumvarpi sem varð að lögum nr. 162/2011 voru margir aðilar, þ. á m. Samkeppniseftirlitið, sem vöruðu við lagabreytingunum og töldu hættu á að þær gætu raskað samkeppni, einkum á umræddri leið milli FLE og Reykjavíkur. Í nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar kemur fram sú ætlan löggjafans að með lögunum sé ekki verið að hamla samkeppni heldur muni hún fara fram á öðrum vettvangi, þ.e. með útboði. Ljóst er af framangreindu að þessar forsendur laganna standast ekki.
Tilmæli til innanríkisráðherra og Vegagerðarinnar
Af þessum sökum beinir Samkeppniseftirlitið þeim tilmælum til innanríkisráðherra að hann taki nú þegar til endurskoðunar fyrrgreindar breytingar á lögum nr. 73/2001. Við þá endurskoðun verður að finna leiðir til þess að sveitarfélög skipuleggi og samræmi almenningssamgöngur innan og á milli byggðarlaga, án þess að hindra samkeppni og um leið skaða hagsmuni almennings og ferðaþjónustunnar. Í því sambandi er mikilvægt að skilgreina almenningssamgöngur gagnvart ferðaþjónustu og koma í veg fyrir að samtök sveitarfélaga geti komið á einokun á áætlunarleiðum milli byggðarlaga sem skila hagnaði. Við þá endurskoðun verður að gæta að skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum.
Samkeppniseftirlitið beinir því einnig til innanríkisráðherra og Vegagerðarinnar að leita þegar í stað allra leiða til þess að stöðva áform SSS um að koma á einokun á áætlunarleiðinni milli FLE og Reykjavíkur, sem grundvallast umræddum lögum og samningi Vegagerðarinnar og SSS um einkaleyfi á leiðinni. Telji þau sig ekki hafa heimild til slíkrar íhlutunar er mælst til þess að leitað verði atbeina löggjafans þegar í stað.
Þá hefur Samkeppniseftirlitið beint því til SSS að stöðva þegar í stað fyrrgreind áform sín um einokun á áætlunarleiðinni milli FLE og Reykjavíkur.