Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfestir sátt Samkeppniseftirlitsins við Skipti frá 26. mars 2013
Samkeppniseftirlitið og Skipti gerðu í mars 2013 sátt um lok þeirra mála sem eftirlitið hafði þá til rannsóknar. Sáttin var tekin upp í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 6/2013 frá 26. mars 2013 og er forsendum hennar þar lýst. Með sáttinni voru gerðar umfangsmiklar breytingar á skipulagi Skiptasamstæðunnar og þar með á íslenska fjarskiptamarkaðnum í því skyni að efla samkeppni. Með henni er tryggt að keppinautar Símans sitji við sama borð og Síminn sjálfur varðandi aðgang að grunnfjarskiptakerfum Skipta. Er gengið lengra í slíkum aðskilnaði fyrrum einokunarfyrirtækis í fjarskiptum en tíðkast í nágrannalöndum. Skipti féllust einnig á að greiða 300 milljónir kr. í stjórnvaldssekt. Reifun á efni sáttarinnar er að finna hér.
Nova, sem var aðili að tveimur málum sem lokið var með sáttinni kærði hana til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og krafðist þess að lagt yrði fyrir Samkeppniseftirlitið að ljúka málsmeðferð í þeim málum er Nova var aðili að eða, til vara, að sáttin yrði felld úr gildi. Taldi Nova m.a. að Samkeppniseftirlitinu hefði verið óheimilt að ljúka málinu með sátt án samþykkis félagsins.
Með úrskurði sínum sem birtur var í gær hafnaði áfrýjunarnefnd samkeppnismála þessum kröfum Nova og stendur því sáttin óhögguð.