12.9.2013

Eftirlitsnefnd Skipta um jafnan aðgang fjarskiptafyrirtækja (ejaf) opnar heimasíðu

Mynd: Merki SkiptaSamkeppniseftirlitið og Skipti gerðu í mars 2013 sátt um lok þeirra mála sem eftirlitið hafði þá til rannsóknar. Sáttin var tekin upp í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 6/2013 frá 26. mars 2013 og er forsendum hennar þar lýst. Með ákvörðuninni voru gerðar umfangsmiklar breytingar á skipulagi Skiptasamstæðunna og þar með á íslenska fjarskiptamarkaðnum í því skyni að efla samkeppni. Með henni á að vera tryggt að keppinautar Símans sitji við sama borð og Síminn sjálfur varðandi aðgang að grunnfjarskiptakerfum Skipta. Reifun á efni ákvörðunarinnar er að finna hér.

Í ákvörðuninni er kveðið á um að Skipti  stofni sérstaka eftirlitsnefnd um jafnan aðgang fjarskiptafyrirtækja að þjónustu Mílu og heildsölu Símans. Hlutverk nefndarinnar er m.a. að fylgjast með innleiðingu breytinga og hafa eftirlit með því að fyrirmælum í skilyrðum sé fylgt. Ber nefndinni að greina Samkeppniseftirlitinu frá því ef nefndin verður vör við að skilyrði ákvörðunarinnar kunni að hafa verið brotin.

Nefndarmenn voru tilnefndir af Skiptum en tilnefning tveggja óháðra nefndarmanna var háð samþykki Samkeppniseftirlitsins að höfðu samráði við Póst- og fjarskiptastofnun (PFS). Við val á nefndinni varð að hafa hliðsjón af markmiðum ákvörðunarinnar, þ.á m. um að skapa viðunandi traust á starfsemi Skipta. Laut það bæði að þekkingu nefndarmanna og stöðu þeirra þeirra og störfum. Í nefndinni, sem tók nefndin til starfa í júlí á þessu ári, sitja:

  • Gísli Heimisson, verkfræðingur, formaður nefndarinnar
  • Stefán Geir Þórisson, hrl.
  • Þorvarður Sveinsson, verkfræðingur

Til þess að tryggja aðilum á markaði leið til að fá skjótari úrlausn sinna mála, þar sem því verður við komið, er eftirlitsnefndinni m.a. falið það hlutverk að taka við kvörtunum og/eða ábendingum frá fjarskiptafyrirtækjum. Er þarna um að ræða valkost fyrir aðila á markaði til þess að fá mögulega skjóta lausn á ýmsum málum. Eftirlitsnefnd skal reyna að komast að einróma niðurstöðu en sé það ómögulegt þá skal afl atkvæða ráða niðurstöðu. Uni viðkomandi ekki úrlausn eftirlitsnefndarinnar ber nefndinni að upplýsa hann um möguleikann á því að bera ágreining undir viðeigandi stjórnvald eða dómstóla.

Til þess að taka af allan vafa þá felur hlutverk nefndarinnar ekki með neinum hætti í sér framsal á valdi og skyldum Samkeppniseftirlitsins eða annarra eftirlitsaðila. Hins vegar er þess vænst að aðilar á markaði þurfi ekki að leita til Samkeppniseftirlitsins í jafn ríkum mæli og áður, þar sem þeir fái úrlausn sinna mála á frumstigum.

Hefur eftirlitsnefndin nú opnað heimasíðu þar sem m.a. er hægt að fá upplýsingar um netfang og verklagsreglur nefndarinnar. Heimasíða nefndarinnar er www.ejaf.is. Líkt og þar kemur fram er hægt að senda nefndinni ábendingar og kvartanir á póstfangið ejaf@ejaf.is