24.9.2007

Héraðsdómur úrskurðar Samkeppniseftirlitinu í hag í máli Flugþjónustunnar á Keflavíkurflugvelli

heradsdomur_reykjavik_logo_549331046Í ákvörðun frá 27. mars 2006 nr. 9/2006 komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að Flugþjónustan á Keflavíkurflugvelli (IGS), dótturfélag FL Group (nú Icelandair Group), hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína við afgreiðslu farþegaflugvéla. Fyrirtækið braut 11. gr. samkeppnislaga þegar það gerði 10 einkakaupasamninga við flugfélög sem lenda á Keflavíkurflugvelli og með því að gera flugfélaginu LTU samkeppnishamlandi tilboð. Samkeppniseftirlitið gerði fyrirtækinu að greiða 80 milljóna króna stjórnvaldssekt til ríkissjóðs. Í júlí 2006 staðfesti áfrýjunarnefnd samkeppnismála þá niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins að IGS hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína en ákvað að stjórnvaldssekt skyldi vera 60 milljón kr.

IGS höfðaði síðan mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem þess var krafist að úrskurður áfrýjunarnefndar yrði felldur úr gildi eða stjórnvaldssektin yrði felld niður eða lækkuð verulega. Í dómi sínum í dag hafnaði Héraðsdómur þessum kröfum IGS. Féllst dómurinn á að IGS hefði brotið gegn samkeppnislögum og að álögð sekt væri í samræmi við alvarleg brot félagsins.

Dómur Héraðsdóms.