Rekstrarfélag Kringlunnar breytir umgjörð sinni og starfsháttum eftir skoðun Samkeppniseftirlitsins
Samkeppniseftirlitið hefur haft til skoðunar hvort ástæða sé til að hefja rannsókn á því hvort Rekstrarfélag Kringlunnar (hér eftir Kringlan) og/eða verslunarfyrirtæki í Kringlunni hafi brotið gegn samkeppnislögum. Forsaga skoðunar Samkeppniseftirlitsins er nánar tiltekið sú að í desembermánuði 2012 birtust fréttir í fjölmiðlum þar sem fram kom að eiganda verslunarinnar Maníu, hafi verið tilkynnt af forsvarsmönnum Kringlunnar að hún þyrfti að loka jólamarkaði sínum sem hún kom á fót í Kringlunni í sama mánuði. Leiddi þessi fréttaflutningur til þess að Samkeppniseftirlitið ákvað að eigin frumkvæði að afla upplýsinga.
Við skoðun Samkeppniseftirlitsins komu m.a. fram vísbendingar um að ákvæði í félagssamþykktum og reglum Kringlunnar gætu falið í sér brot gegn ákvæðum samkeppnislaga.
Í tengslum við þessa athugun Samkeppniseftirlitsins hefur Kringlan boðað breytingar og endurskoðun á regluverki félagsins. Varða breytingarnar m.a. skipan og hlutverk stjórnar Kringlunnar. Þannig að eftirleiðis geta ekki setið í stjórn einstaklingar sem hafa ríkra samkeppnishagsmuna að gæta í Kringlunni en fyrir breytinguna gátu fasteignaeigendur eða afnotahafar í Kringlunni tekið sæti í stjórn félagsins. Einnig fela breytingarnar t.d. í sér innleiðingu ákvæðis í samskiptareglur Kringlunnar þar sem kveðið er á um að reglurnar eigi ekki koma í veg fyrir verðsamkeppni á milli rekstraraðila Kringlunnar. Kringlan hefur tekið fram að þessar breytingar feli ekki í sér viðurkenningu á brotum heldur séu gerðar til þess að taka af öll tvímæli um að starfsemi Kringlunnar sé ætlað að vera í fullu samræmi við kröfur samkeppnislaga.
Með hliðsjón af endurskoðun og breytingum Kringlunnar á regluverki sínu og starfsemi hefur Samkeppniseftirlitið ákveðið að aðhafast ekki frekar vegna málsins að svo stöddu. Verði hins vegar ekki af áformuðum og áður lýstum breytingum á umgjörð og starfsemi rekstrarfélagsins við fyrstu hentugleika og eigi síðar en í nóvember nk., kann Samkeppniseftirlitið að taka málið til formlegrar rannsóknar.
Samkeppniseftirlitið tekur fram að það telur samkeppni á vettvangi verslunarmiðstöðva þýðingarmikla. Er mikilvægt að öllum hlutaðeigandi sé ljóst að samstarf á m.a. vettvangi Kringlunnar má ekki með óeðlilegum hætti hindra aðgang nýrra keppinauta að markaðnum og draga úr samkeppni. Það er því mikilvægt að aðrar verslunarmiðstöðvar og –kjarnar, auk annarra samtöka verslana, endurskoði umgjörð sína og starfshætti með hliðsjón af framangreindu. Að öðrum kosti kann síðar að koma til afskipta Samkeppniseftirlitsins.