9.4.2008

Samkeppniseftirlitið beinir tilmælum til samgönguráðherra vegna ríkisstyrkja til flugsamgangna

Samkeppniseftirlitið hefur beint þeim tilmælum til samgönguráðherra að beita sér fyrir því að gæta jafnræðis milli flugfélaga við veitingu ríkisstyrkja til flugsamgangna í þeim tilgangi að greiða fyrir mögulegri samkeppni á viðkomandi mörkuðum. Er því beint til samgönguráðherra að hann stuðli að því að framvegis fari fram útboð um ríkisstyrki til flugfélaga á milli áfangastaða innanlands í samræmi við reglur þar um og almenna góða samkeppnishætti þannig að tryggt verði eftir föngum jafnræði og samkeppni á innlendum flugþjónustumarkaði.

Forsaga málsins er sú að eftir að Landsflug hf. hætti áætlunarflugi milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur þann 25. september 2006 fól samgönguráðherra Vegagerðinni að semja við Flugfélag Íslands hf. um að halda úti tímabundnu áætlunarflugi á flugleiðinni. Gengið var frá samningnum þann 11. október 2006 og hófst flug samkvæmt honum þann 15. október 2006. Um var að ræða samning sem gilda átti í a.m.k. 10 mánuði en á þeim tíma var gert ráð fyrir að unnið yrði að formlegu útboði á flugleiðinni.

Ákvörðun um veitingu styrksins fór þannig fram að rætt var við valda aðila en þeir voru Flugfélag Íslands, Landsflug og Flugfélagið Ernir ehf. Ekkert samband var haft við Flugfélag Vestmannaeyja í tengslum við þessar aðgerðir hins opinbera, þrátt fyrir að félagið hafi á þessum tíma verið sá aðili sem flutti flesta farþega í flugi til Vestmannaeyja en félagið hefur annast áætlunarflug milli Vestmannaeyja og Bakkaflugvallar auk leiguflugs milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur. Jafnframt er upplýst að Flugfélag Vestmannaeyja hafi á þessum tíma haft til skoðunar að hefja áætlunarflug milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja. Taldi ráðuneytið að félagið gæti ekki uppfyllt skilyrði Vegagerðarinnar um flugvélakost.  Að mati Flugfélags Vestmannaeyja hefur ríkisstyrkur til Flugfélags Íslands valdið Flugfélagi Vestmannaeyja tjóni.

Í áliti Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Flugfélag Vestmannaeyja hafi hagsmuni af því hvernig flugi á milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur sé háttað. Samkeppniseftirlitið telur það ekki málefnalegt eða í samræmi við góða samkeppnishætti að leita ekki til Flugfélags Vestmannaeyja þegar Vegagerðin ákvað að gera samning til skamms tíma um ríkisstyrkt flug milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur haustið 2006. Unnt var að halda til haga kröfum sem Vegagerðin gerði til umrædds flugs, s.s. varðandi stærð og fleira sem lýtur að flugvélakosti og þjónustu, án þess að útiloka keppinaut á flugmarkaðnum fyrirfram frá ferlinu. Er það mat Samkeppniseftirlitsins að Vegagerðinni í umboði samgönguráðuneytisins hafi borið að gefa Flugfélagi Vestmannaeyja tækifæri til að gera tilboð í hið ríkisstyrkta flug ásamt þeim sem til var leitað eða að öðrum kosti að bjóða það út í samræmi við reglur. Með vinnubrögðum ráðuneytisins í þessu máli var unnið gegn mögulegri innkomu nýs aðila í flugi milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja.