14.4.2008

Undanþágubeiðni Frumtaks frá bannreglu 10 gr. samkeppnislaga nr. 44/2005

Samkeppniseftirlitinu barst erindi frá samstarfsaðilum innan Frumtaks, þ.e. Frumtaks GP ehf. og Frumtaks slhf., þar sem óskað var eftir því að samstarf viðskiptabankanna Glitnis banka hf., Kaupþings banka hf. og Landsbanka Íslands hf. um áhættufjárfestingar í sprotafyrirtækjum í gegnum samlagshlutafélagið Frumtak yrði veitt undanþága frá bannákvæði 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 á grundvelli 15. gr. samkeppnislaga. Forsaga málsins var sú að Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hafði heimild samkvæmt lögum nr. 61/1997 um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, sbr. einnig lög nr. 133/2005 um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf., til að stofna samlagssjóð sem stæði að áhættufjárfestingum í nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum. Samkvæmt 5. gr. laga nr. 133/2005 skyldi Nýsköpunarsjóður fá samtals 1.500 milljónir króna viðbótarframlag á árunum 2007 - 2009 til að standa undir hlutdeild sinni í stofnun slíkra nýrra samlagssjóða með lífeyrissjóðum og öðrum fjárfestum í nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum, enda næmi eignarhlutur annarra en Nýsköpunarsjóðs í slíkum sjóði a.m.k. 50%. Í samræmi við forsendur fyrrnefnds lagaákvæðis leitaði Nýsköpunarsjóður því til viðskiptabankanna Glitnis banka hf., Kaupþings banka hf. og Landsbanka Íslands hf. auk nokkurra helstu lífeyrissjóða landsins, um þátttöku í verkefninu. Viðskiptabankarnir þrír féllust á þátttöku í samstarfsverkefninu og veittu framlög að fjárhæð 500 milljónir króna hver. Vegna þessa samstarfsverkefnis sóttu viðskiptabankarnir um undanþágu til Samkeppniseftirlitsins frá bannákvæðum samkeppnislaga við samstarfi keppinauta.

Í ákvörðun sinni taldi Samkeppniseftirlitið að samstarfið væri til þess fallið að raska samkeppni og tók fram í því samhengi að íslenskur bankamarkaður væri fákeppnismarkaður þar sem bankar og sparisjóðir starfa að meginstefnu til á sömu mörkuðunum og njóta þar yfirburðarstöðu. Samkeppniseftirlitið ákvað þó að veita samstarfinu tímabundna undanþágu en setti undanþágunni skilyrði sem samstarfsaðilarnir samþykktu að gangast undir. Með þeim skilyrðum er meðal annars ætlað að girða fyrir að af samvinnu viðskiptabankanna í gegnum Frumtak leiði frekara samráð milli viðskiptabankanna sem falist getur meðal annars í markaðsskiptingu eða því að skuldbinda þá aðila, sem Frumtak fjárfestir í, um frekari viðskipti eða aðrar viðbótarskuldbindingar sem tengjast ekki efni samninganna.

Ákvörðun nr. 20/2008.