3.2.2014

Vegna ummæla fyrrverandi forstjóra Iceland Express

Mynd af flugvél WOW air ehf. - Mynd WOW.isÍ fjölmiðlum á föstudag er haft eftir Skarphéðni Berg Steinarssyni, fyrrverandi forstjóra Iceland Express, að hann furði sig á málarekstri gagnvart Isavia, en Wow Air hefur undanfarna mánuði leitað eftir flugafgreiðslutímum á Keflavíkurflugvelli, á tilteknum tímabilum dagsins, í því skyni að hefja Ameríkuflug í samkeppni við Icelandair.  Samkeppniseftirlitið fjallaði um málið í ákvörðun nr. 25/2013 og beindi bindandi fyrirmælum til Isavia vegna málsins í því skyni að efla samkeppni.

Í fyrrgreindum fréttum er haft eftir Skarphéðni Berg Steinarssyni að Iceland Express hafi ekki átt í neinum vandkvæðum með að sinna flugi til Boston og New York árið 2011. Af þessu tilefni er rétt að fram komi að á þeim tíma sem Skarphéðinn vísar til hafði Samkeppniseftirlitið til meðferðar kvörtun frá Iceland Express þar sem félagið kvartaði undan alvarlegum samkeppnishindrunum sem stöfuðu af úthlutun flugafgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli. Í júní 2012, þegar Skarphéðinn var framkvæmdastjóri Iceland Express, barst Samkeppniseftirlitinu bréf frá félaginu þar sem fram kemur það mat að fyrirkomulag Isavia við úthlutun afgreiðslutíma hafi haft veruleg útilokunaráhrif fyrir Iceland Express og viðhéldi yfirburðarstöðu Icelandair í áætlunarflugi til og frá Íslandi. Einnig er vísað til þess að Isavia hafi með fyrirkomulaginu veitt Icelandair samkeppnisforskot og „einkarétt“ á bestu afgreiðslutímum á flugvellinum. Hafi Iceland Express m.a. þurft að hætta áætlunarflugi til Bandaríkjanna sem það hafði starfrækt árin 2010 og 2011.

Yfirlýsingar Skarphéðins Berg Steinarssonar um úthlutun Isavia á afgreiðlutímum eru því í ósamræmi við sjónarmið sem Iceland Express undir hans stjórn setti fram við Samkeppniseftirlitið um mitt ár 2012. Telur Samkeppniseftirlitið mikilvægt að opinber umræða um mikilvæg samkeppnismál fari fram á réttum forsendum.