10.2.2014

Vegna umfjöllunar um úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli

Flugstöð Leifs Eiríkssonar - Mynd kefairport.isLaugardaginn 8. febrúar var á visi.is birt frétt þar sem fjallað er um afstöðu Frank Holton samræmingarstjóra Keflavíkurflugvallar til úthlutunar afgreiðslutíma á vellinum. Óhjákvæmilegt er að bregðast við rangfærslum sem finna má í fréttinni.

Eftirfarandi er haft beint eftir Holton: „Það hefði kannski verið skynsamlegt ef fólkið í Samkeppniseftirlitinu hefði haft samband við okkur sem sjáum um að úthluta þessum tímum áður en þau komust að þessari niðurstöðu.“ Af þessu tilefni er rétt að taka fram að í umræddri ákvörðun nr. 25/2013 kemur fram að leitað var ítrekað sjónarmiða Franks Holton við meðferð málsins og kom hann sjónarmiðum sínum á framfæri. Átti Samkeppniseftirlitið meðal annars fund með samræmingarstjóranum. Kom sú gagnaöflun til viðbótar ítarlegum samskiptum við Isavia. Í ákvörðuninni er m.a. vitnað í þau sjónarmið Franks Holton að það sé glórulaust („foolish – indeed almost silly“) af hálfu WOW Air að ætla að nýta sér sömu brottfarartíma á álagstímum eins og Icelandair. Á fundi með eftirlitinu kom einnig fram hjá samræmingarstjóranum að hann horfi ekki til samkeppnissjónarmiða við úthlutun á nýjum afgreiðslutímum.

Það sem haft er eftir samræmingarstjóra í fréttinni er til frekari rökstuðnings þeirri meginniðurstöðu Samkeppniseftirlitsins að keppinautar Icelandair eigi ekki möguleika á að keppa við félagið í Ameríkuflugi á eðlilegum samkeppnisgrundvelli. Í ákvörðuninni er rakið að Icelandair er og hefur verið veittur forgangur að ákjósanlegustu afgreiðslutímunum á flugvellinum á morgnana og síðdegis. Á það einnig við nýja afgreiðslutíma sem hafa komið til vegna fjölgunar Isavia á flugvélastæðum við flugstöðina.

Vegna annarra fullyrðinga sem fram koma í fréttinni vísar Samkeppniseftirlitið enn á ný til ákvörðunar nr. 25/2013, sem finna má á heimasíðu eftirlitsins. Þar eru færð rök fyrir því að þeir eftirsóttu afgreiðslutímar sem um er deilt veiti samkeppnislegt forskot og að fyrirkomulag úthlutunarinnar hafi skaðleg áhrif á samkeppni. Í ákvörðuninni er einnig fjallað ítarlega um valdsvið ábyrgðaraðila á flugvellinum og tengsl íslensks samkeppnisréttar við Evrópurétt. Þannig er í ákvörðuninni rakið að í reglum um úthlutun afgreiðslutíma á Evrópska efnahagssvæðinu er að finna fyrirvara sem veitir innlendum samkeppnisyfirvöldum heimild til að krefjast breytinga á úthlutun afgreiðslutíma á grundvelli samkeppnislaga. Með hliðsjón af þessum fyrirvara og ákvæðum samkeppnislaga mælti Samkeppniseftirlitið fyrir um úthlutun á afgreiðslutímum til WOW Air á álagstímum til að stuðla að því að samkeppni kæmist á í Ameríkuflugi.