Ólögmætt verðsamráð við gerð tilboða á dönskum byggingamarkaði
Í frétt frá danska samkeppniseftirlitinu kemur fram að sérstakur saksóknari efnahags- og alþjóðlegra sakamála í Danmörku (SØIK) hafi birt 33 verktökum í Stór - Kaupmannahafnarsvæðinu kærur vegna ólöglegs verðsamráðs. Um er að ræða eitt stærsta samráðsmál í Danmörku en það snertir samræmingu verktaka við gerð tilboða í byggingarframkvæmdir, bæði fyrir opinbera- og einkaaðila. Verðmæti byggingarframkvæmdanna sem samráðið náði til nam sem svarar 8-10 milljörðum íslenskra króna. Á það er bent í frétt frá danska samkeppniseftirlitinu að verðsamráð eins og hér um ræðir valdi neytendum og skattgreiðendum miklu tjóni og umframverðlagning verktakanna í hinu ólöglega samráði geti hafa kostað viðskiptavini þeirra 10-50% umfram það sem framkvæmdirnar hefðu ella kostað.
Málið hefur verið unnið í samvinnu embættis sérstaks saksóknara og samkeppniseftirlitsins í Danmörku m.a. við húsleitir hjá fjölda fyrirtækja.