19.5.2014

Rafrænum mælingum Capacent á notkun ljósvakamiðla sett skilyrði sem auðvelda eiga aðgang nýrra keppinauta

Myndatökuvél í sjónvarpsstúdíóiSamkeppniseftirlitið hefur birt ákvörðun nr. 13/2014, Rafræn mæling Capacent ehf. á notkun ljósvakamiðla. Í ákvörðuninni er fjallað um rafræna mælingu Capacent ehf. á hlustun og áhorfi á ljósvakamiðla, þ.e. útvarps- og sjónvarpsútsendingar. Var það mat Samkeppniseftirlitsins að framkvæmd Capacent á mælingunni gæti verið til þess fallin að takmarka samkeppni, einkum á markaði fyrir auglýsingar í ljósvakamiðlum. Hefur Capacent undirgengist sátt við Samkeppniseftirlitið vegna málsins.

Með ákvörðuninni eru framkvæmd mælingarinnar sett ítarleg skilyrði sem ætlað er að auðvelda þátttöku nýrra og minni ljósvakamiðla og birtingaraðila í mælingunni. Þá er með skilyrðunum leitast við að tryggja að framsetning gagna úr mælingunni skekki ekki samkeppnisstöðu ljósvakamiðla og að trúnaðarupplýsingar berist ekki á milli keppinauta vegna framkvæmdarinnar við hana.

Meðal helstu skilyrða má nefna sérstakt ákvæði um verðlagningu til nýrra og minni ljósvakamiðla og ákvæði um birtingu upplýsinga úr mælingunni. Í kostnaði við þátttöku í mælingunni, eins og hann hefur verið til þessa, hefur getað falist töluverð aðgangshindrun fyrir nýja og minni fjölmiðla sem hafa þurft að greiða töluvert stærri hluta af tekjum sínum fyrir þátttöku í mælingunni en stóru miðlarnir.   

Bakgrunnsupplýsingar:

Hin rafræna mæling er framkvæmd með svokölluðum ppm mælum  sem einstaklingar í úrtaki  mælingarinnar sem þátt taka í henni bera á sér. Mælirinn er lítið raftæki sem nemur falið hljóðmerki sem komið er fyrir í útsendingu þeirra sjónvarps- og útvarpsstöðva sem eru þátttakendur í mælingunni.

Með ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 61/2008, Ósk um undanþágu frá ákvæði samkeppnislaga um bann við samstarfi keppinauta vegna samnings Capacent ehf., Ríkisútvarpsins ohf., var veitt undanþága á grundvelli 15. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 fyrir samstarfi Capacent, Ríkisútvarpsins ohf., 365 miðla ehf. og Skjásins miðla ehf. um rafræna mælingu á notkun ljósvakamiðla á Íslandi. Undanþágan var veitt með tilteknum skilyrðum sem m.a. lutu að jöfnum aðgangi annarra ljósvakamiðla að mælingunni. Í kjölfar breytinga á eignarhaldi Capacent og þess búnaðar sem notaður er við mælinguna féll sá samningur sem hafði verið grundvöllur samstarfsins og undanþágunnar úr gildi. Nýja Capacent gerði tvíhliða samninga við þá fjölmiðla sem voru þátttakendur í mælingunni og var því ekki lengur um formbundið samstarf keppinauta að ræða.

Athugun Samkeppniseftirlitsins á mælingunni fólst í upphafi í því að fylgja eftir ábendingum um möguleg brot Capacent á skilyrðum ákvörðunar nr. 61/2008.