12.6.2014

Undirréttur ESB staðfestir sekt framkvæmdastjórnar á Intel

Mynd af netþjónum í vélasalÍ dag kvað Almenni  dómstóllinn (undirréttur ESB) upp dóm í máli bandaríska fyrirtækisins Intel gegn framkvæmdastjórn ESB. Hún hafði komist að þeirri niðurstöðu að Intel hefði með mjög alvarlegum hætti misnotað markaðsráðandi stöðu sína og brotið gegn ESB og EES samkeppnisreglum.  Það hefði Intel gert með því að veita framleiðendum á tölvum (t.d. Dell, Lenovo og HP) afslætti gegn því að þeir notuðu aðeins eða að mestu leyti örgjafa frá Intel.  Framkvæmdstjórnin lagði sekt á Intel vegna þessa brots og var hún rúmlega milljarður evra. Er það hæsta sekt sem framkvæmdastjórnin hefur lagt á fyrirtæki vegna brota á samkeppnisreglum.  Með dómi sínum í dag staðfesti Almenni  dómstóllinn niðurstöðu framkvæmdastjórnarinnar um brot Intel og álagða sekt á fyrirtækið.