Rannsókn Samkeppniseftirlitsins á brotum Húsasmiðjunnar lokið með sátt
Fyrri rekstraraðili Húsasmiðjunnar viðurkennir brot og greiðir 325 milljónir kr. í sekt
Nýja Húsasmiðjan grípur til ráðstafana sem ætlað er að efla samkeppni
Samkeppniseftirlitið hefur haft til rannsóknar ætluð brot aðallega Byko og Húsamiðjunnar á banni við ólögmætu samráði, sbr. 10. gr. samkeppnislaga, og ætluð brot Húsasmiðjunnar og Steinullar gegn ákvörðun samkeppnisráðs nr. 19/2002.
Rannsóknin tók til atvika sem áttu sér stað allt til mars 2011. Á rannsóknartímabili málsins rak Holtavegur 10 ehf. byggingavöruverslanir undir nafninu Húsasmiðjan (hér eftir „gamla Húsasmiðjan“). Síðar var þessi rekstur og vörumerki Holtavegar 10 ehf. seld til nýs eiganda sem í dag rekur Húsasmiðjuna ehf. Þau brot á samkeppnislögum sem viðurkennd hafa verið, og lýst er hér, tengjast ekki nýjum eiganda Húsamiðjunnar.
Holtavegur 10 ehf. og Húsasmiðjan ehf. snéru sér til Samkeppniseftirlitsins og óskuðu eftir sátt. Á þeim grundvelli hefur Samkeppniseftirlitið nýtt heimild samkeppnislaga og gert sátt við fyrirtækin.
Alvarleg brot viðurkennd
Með sáttinni viðurkennir þáverandi rekstraraðili Húsasmiðjunnar, Holtavegur 10, alvarleg brot á samkeppnislögum og fyrri ákvörðun samkeppnisyfirvalda. Sáttin felur í sér eftirfarandi:
-
Viðurkennt er að gamla Húsasmiðjan hafi brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga með umfangsmiklu ólögmætu samráði við Byko. Í því samráðsbroti gömlu Húsasmiðjunnar fólst m.a.:
-
Reglubundin, yfirleitt vikuleg, samskipti við Byko um verð, birgðastöðu o.fl. í því skyni að hækka verð/vinna gegn verðlækkunum á svonefndum grófum byggingvörum (grófvörur, t.d. timbur, steinull og stál)
-
Samráð við Byko um að hækka verð í öllum tilboðum á grófvöru í áföngum.
-
Samráð við Byko um að vinna gegn verðsamkeppni í sölu á gagnvörðu timbri (pallaefni) á aðalsölutíma þeirrar vöru og reyna þess í stað að hækka verð.
-
Að hafa gert sameiginlega tilraun með Byko til að fá Múrbúðina til að taka þátt í samráði um verð á grófvöru og með því að hafa ákveðið með Byko að fylgjast með aðgerðum Múrbúðarinnar á markaðnum.
-
-
Viðurkennt er að gamla Húsasmiðjan hafi brotið gegn skilyrðum sem sett voru í ákvörðun samkeppnisráðs nr. 19/2002. Þau skilyrði voru sett vegna kaupa Byko, Húsasmiðjunnar og Kaupfélags Skagfirðinga á eignarhlutum í Steinullarverksmiðjunni hf. (nú Steinull hf.). Skilyrðunum var ætlað að vinna gegn því að sameiginleg eignaraðild Byko og Húsasmiðjunnar að Steinull myndi takmarka samkeppni. Játað er að gamla Húsasmiðjan hafi brotið gegn skilyrðunum m.a. með því að hafa beitt sér gagnvart Steinull til að koma í veg fyrir að Múrbúðin fengi ákveðin viðskiptakjör og þannig haft skaðleg áhrif á samkeppnisstöðu Múrbúðarinnar á grófvörumarkaði.
Fyrri rekstraraðili greiðir 325 m.kr. sekt
Framangreind sátt við Holtaveg 10 auðveldar áframhaldandi rannsókn Samkeppniseftirlitsins. Leiðir það til þess að unnt er að gera fyrr enn ella breytingu á markaðnum sem hefur jákvæð áhrif fyrir samkeppni og neytendur. Hér hefur einnig þýðingu að strax við upphaf rannsóknar þessa máls var innan Húsasmiðjunnar gripið til ráðstafana til að vinna gegn frekari brotum.
Sú staðreynd að fyrirtæki gera sátt og viðurkenna brot réttlætir lægri stjórnvaldssekt heldur en ella. Skapar slíkt hvata og möguleika til að hraða rannsókn og aðgerðum neytendum til hagsbóta. Taldi Samkeppniseftirlitið hæfilegt að Holtavegur 10 greiddi 325 milljónir kr. í stjórnvaldssekt vegna brotanna.
Unnið gegn sams konar brotum
Þótt eigendur nýju Húsasmiðjunnar tengist ekki framangreindum brotum er að mati Samkeppniseftirlitsins mikilvægt að vinna gegn því að samskonar brot geti átt sér aftur og stuðla þannig að virkari samkeppni til frambúðar á mikilvægum markaði. Samhliða sáttinni við Holtaveg 10 hefur Samkeppniseftirlitið því einnig gert sátt við Húsasmiðjuna.
Í sáttinni felst að hert er á þeim skilyrðum sem gilda um eignarhaldið á Steinull. Meðal annars felst í því að fulltrúi Húsasmiðjunnar víkur úr stjórn Steinullar og þess í stað er skipaður óháður stjórnarmaður. Einnig skuldbindur Húsasmiðjan sig til að innleiða og viðhalda samkeppnisréttaráætlun og tryggja að stjórnendur og starfsmenn fyrirtækisins séu ávallt að fullu upplýstir um þær kröfur sem samkeppnisreglur gera til starfsemi fyrirtækja á samkeppnismarkaði.
Bakgrunnsupplýsingar:
-
Þann 8. mars 2011 framkvæmdi efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra (nú embætti sérstaks saksóknara) húsleitir í húsnæði Byko, Húsasmiðjunnar og Úlfsins, í samvinnu við Samkeppniseftirlitið.
-
Rannsókn embættis sérstaks saksóknara beindist að ætluðum brotum starfsmanna fyrirtækjanna og grundvallaðist á kæru Samkeppniseftirlitsins, en þau brot sæta rannsókn lögreglu að undangenginni kæru stofnunarinnar. Hefur Sérstakur saksóknari nú ákært tiltekna starfsmenn.
-
Samhliða rannsókn Sérstaks saksóknara á brotum einstaklinga hefur Samkeppniseftilritið rannsakað brot hlutaðeigandi fyrirtækja. Í maí sl. birti eftirlitið aðilum málsins ítarlegt andmælaskjal þar sem frummat er lagt á hin ætluðu brot. Í framhaldi af því óskuðu framangreind fyrirtæki eftir sátt við Samkeppniseftirlitið, eins og áður greinir.
-
Framangreind sátt er ótengd því máli sem rekið hefur verið á vettvangi Sérstaks saksóknara.
-
Ætluð brot Byko og Steinullar eru enn til rannsóknar hjá Samkeppniseftirlitinu.