Nýjar reglur Samkeppniseftirlitsins um tilkynningu og málsmeðferð í samrunamálum
Í dag, þann 11. júlí 2008, taka gildi nýjar reglur Samkeppniseftirlitsins nr. 684/2008 um tilkynningu og málsmeðferð í samrunamálum. Reglurnar koma í stað reglna nr. 881/2005 og voru settar til samræmis við breytt ákvæði samkeppnislaga er varða samruna sem tóku gildi þann 24. júní síðastliðinn. Meginmarkmið nýrra reglna Samkeppniseftirlitsins og viðauka með þeim eru að þær verði aðgengilegar og leiðbeinandi og að upplýsingar sem veita þarf við tilkynningu séu fullnægjandi miðað við hið nýja efnislega mat sem lögin gera nú ráð fyrir.
Með lögum nr. 94/2008 var ákvæðum samkeppnislaga nr. 44/2005, er varða samruna, breytt í ljósi þeirrar reynslu sem komin var á beitingu áður gildandi ákvæða um samruna. Samrunareglur íslenskra samkeppnislaga voru þannig styrktar um leið og þær voru færðar nær reglum EES- og EB- réttarins á sviðinu. Helstu breytingar sem felast í lagabreytingunum eru eftirfarandi:
- Samruni kemur nú ekki til framkvæmda á meðan Samkeppniseftirlitið fjallar um hann, sbr. 3. mgr. 17. gr. a samkeppnislaga.
- Veltumörk sem miðað er við þegar metið er hvort samrunar séu tilkynningarskyldir eru hækkuð, sbr. 1. mgr. 17. gr. a samkeppnislaga.
- Heimilt er nú að tilkynna um samruna með styttri tilkynningu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum svo sem ef þeir markaðir þar sem áhrifa samrunans gætir eru ekki tengdir, sbr. 6. mgr. 17. gr. a samkeppnislaga.
- Ákvæðum um fresti til að taka ákvarðanir í samrunamálum hefur verið breytt, sbr. 17. gr. d samkeppnislaga.
- Efnislegt mat Samkeppniseftirlitsins á samkeppnislegum áhrifum samruna tekur nú ekki eingöngu til þess hvort markaðsráðandi staða hafi orðið til eða styrkst heldur einnig til þess hvort samkeppni á markaði raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti, sbr. 17. gr. c samkeppnislaga.
- Samkeppniseftirlitið getur nú tekið mál fyrir að nýju, hafi áfrýjunarnefnd eða dómstóll ógilt ákvörðun eftirlitsins sökum formgalla, sbr. 2. mgr. 17. gr. e samkeppnislaga.
- Skilgreiningar á samruna og yfirráðum hafa verið færðar til samræmis við evrópskan samkeppnisrétt, sbr. 17. gr. samkeppnislaga.
Reglur (PDF skjal - Opnast í nýjum glugga)