13.8.2008

Eignarhald Stoða Eignarhaldsfélags hf. (áður FL Group) í Landic Property ehf. og Þyrpingu hf.

Þann 11. apríl sl. barst Samkeppniseftirlitinu fullnægjandi samrunaskrá þar sem tilkynnt var um kaup FL Group (nú Stoða eignarhaldsfélags hf.) á eignarhlutum í fasteignafélögunum Þyrpingu, Landic Property, Eikarhaldi og Fasteignafélagi Íslands.  Í samrunaskránni reifar FL Group hins vegar þá afstöðu félagsins að kaup á hlutum í umræddum fasteignafélögum feli ekki í sér samruna í skilningi samkeppnislaga. Svo sem nánar er reifað í ákvörðuninni hafði Samkeppniseftirlitinu áður verið tilkynnt um samruna Stoða hf. og Landsafls ehf. (nú Landic Property hf.) annars vegar og samruna Eikarhalds ehf. (nú Eik Properties ehf.) og Fasteignafélagsins Eikar ehf. hins vegar. Hafði Samkeppniseftirlitið komist að þeirri niðurstöðu að um ófullnægjandi samrunaskrár væri að ræða þar sem það var mat Samkeppniseftirlitsins að FL Group hefði öðlast yfirráð yfir framangreindum tveimur félögum, þ.e. Landic Property og Eikarhaldi. Í kjölfar frekari breytinga á eignarhaldi Landic Property og Eikarhalds sem og á félögunum Þyrpingu og Fasteignafélagi Íslands, sem urðu þann 4. desember 2007, var FL Group tilkynnt að það væri mat Samkeppnis­eftirlitsins að FL Group hefði öðlast yfirráð yfir öllum fjórum fasteigna­félögunum, þ.e. Þyrpingu, Eikarhaldi, Landic Property og Fasteignafélagi Íslands.

Eins og nánar er rakið í ákvörðuninni er sökum breytinga á eignarhaldi Eikarhalds og Fasteignafélags Íslands einungis fjallað í ákvörðun þessari um eignarhald Stoða Eignarhaldsfélags (áður FL Group) á Landic Property og Þyrpingu.

Að mati Samkeppniseftirlitsins mun samlegðaráhrifa samrunans fyrst og fremst gæta í starfsemi félaganna við útleigu á atvinnuhúsnæði. Athugun Samkeppniseftirlitsins á markaðshlutdeild, gerð markaðarins og öðrum þáttum sem fram koma í gögnum málsins leiðir ekki til þeirra niðurstöðu að Landic Property og Þyrping komist í markaðsráðandi stöðu. Í ljósi þessa er það mat Samkeppniseftirlitsins að ekki sé ástæða til að hafast að vegna umrædds samruna á grundvelli 17. gr. samkeppnislaga. Möguleg tengsl þessara félaga við fasteignafélagið Eik Properties (áður Eik og Fasteignafélag Íslands) verða tekin til skoðunar í öðru máli.