Samkeppniseftirlitið heimilar samruna 365 miðla ehf. og IP-fjarskipta hf. með skilyrðum
Samkeppniseftirlitið hefur haft til rannsóknar samruna 365 miðla ehf. og IP-fjarskipta ehf., á grundvelli samrunatilkynningar sem eftirlitinu barst fyrr í haust. Í kjölfar viðræðna við samrunaaðila hafa 365 miðlar ehf. fallist á að hlíta tilteknum bindandi skilyrðum í starfsemi sinni í því skyni að draga úr hættunni á mögulegum samkeppnishamlandi áhrifum samrunans.
Á þeim grunni hefur Samkeppniseftirlitið heimilað samrunann. Samkvæmt framangreindu hafa 365 fallist á að sæta eftirfarandi skilyrðum í starfsemi sinni:
- Óheimilt er að gera það að skilyrði fyrir kaupum á þjónustu sem fyrirtækið veitir á fjölmiðlamarkaði að fjarskiptaþjónusta félagsins fylgi með í kaupunum.
- Óheimilt að tvinna saman í sölu fjölmiðlaþjónustu fyrirtækisins og fjarskiptaþjónustu þess gegn verði eða viðskiptakjörum sem jafna má til slíks skilyrðis. Óheimilt er að gefa einstaka þjónustuþætti í heild sinni.
- Þá er tiltekið að innleiðingu og uppbyggingu þjónustu á farsíma- og sjónvarpsdreifingarmarkaði skuli lokið eigi síðar en 1. apríl 2016 og taka skilyrði þá að fullu gildi gagnvart þeirri þjónustu. Að öðru leyti taka skilyrðin strax gildi.
- Gæta skal gagnsæis í verðlagningu mismunandi þjónustuþátta fyrirtækisins.
Framangreind skilyrði eru byggð á mati á samkeppnisaðstæðum á viðkomandi mörkuðum. Það mat byggir á gögnum og sjónarmiðum hjá fyrirtækjum og stjórnvöldum á fjölmiðla- og fjarskiptamörkuðum. Ennfremur var lagt mat á alþjóðlega þróun á fjölmiðlamarkaði, einkum hugsanlegra breytinga á markaði fyrir áskriftarsjónvarp.
Samkeppniseftirlitið mun á næstunni birta á heimasíðu sinni ákvörðun um samrunann þar sem skilyrði fyrir honum verða skýrð nánar.