16.12.2014

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála leggur fyrir Samkeppniseftirlitið að rannsaka nánar hugsanlega misnotkun MS á markaðsráðandi stöðu.

MjólkurvörurÁfrýjunarnefnd hefur í dag lagt fyrir Samkeppniseftirlitið að rannsaka nánar verðlagningu MS á hrámjólk til annars vegar tengdra fyrirtækja og hins vegar keppinauta MS samstæðunnar. Að mati áfrýjunarnefndar er þetta nauðsynlegt þar sem MS lét, við meðferð málsins fyrir Samkeppniseftirlitinu, undir höfuð leggjast að upplýsa Samkeppniseftirlitið um samning við Kaupfélag Skagfirðinga, sem fyrirtækið síðan byggði málflutning sinn á fyrir áfrýjunarnefnd. Að mati áfrýjunarnefndar komu ekki heldur fram viðhlítandi skýringar af hálfu MS á framkvæmd samningsins við málflutning fyrir nefndinni. 

Forsaga málsins er sú að í lok september sl. komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að Mjólkursamsalan ehf. (MS) hefði brotið gegn banni 11. gr. samkeppnislaga við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Tildrög málsins voru að Mjólkurbúið Kú ehf. (Mjólkurbúið) kvartaði yfir því að þurfa að greiða MS hærra verð fyrir óunna mjólk til vinnslu, sk. hrámjólk, en keppinautar Mjólkurbúsins sem eru tengdir MS þyrftu að greiða. 

Samkeppniseftirlitið taldi í ákvörðun sinni að MS hefði með ólögmætum hætti mismunað Mjólkurbúinu og áður Mjólku á meðan hún var í eigu fyrri eigenda, með því að selja fyrirtækjunum ógerilseydda hrámjólk á allt að 17% hærra verði en gilti gagnvart tengdum aðilum, þ.e. KS og síðar Mjólku þegar hún hafði verið seld KS. Var þessi mismunun í hráefnisverði til þess fallin að veikja Mjólku sem keppinaut MS og tengdra félaga. Eftir að Mjólka komst í eigu KS fékk félagið hrámjólk á allt öðru og lægra verði en áður frá MS, en þegar félagið var keppinautur MS og KS á mjólkurvörumarkaði. Var það niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að MS hafi með alvarlegum hætti brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga og lagði á 370 milljóna króna kr. í sekt á fyrirtækið. 

Fyrir áfrýjunarnefnd lagði MS í fyrsta sinn fram tiltekið gagn, samning við Kaupfélag Skagfirðinga frá 15. júlí 2008. Undir rannsókn málsins hafði MS aldrei vísað til eða greint Samkeppniseftirlitinu frá þessu samningi, þrátt fyrir að Samkeppniseftirlitið hefði ítrekað óskað eftir skýringum og gögnum frá MS vegna umræddrar verðlagningar. Í úrskurði áfrýjunarnefndar segir um þetta: 

„Þótt ekki hafi komið haldbærar skýringar á því hjá áfrýjanda hvers vegna bæði samningurinn hafi ekki verið lagður fram við meðferð málsins hjá Samkeppniseftirlitinu né grundvallargögn um efndir hans og uppgjör hjá áfrýjunarnefndinni telur nefndin sér skylt á grundvelli rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar að koma málinu í þann farveg að upplýst sé um þessi atriði. Við munnlegan málflutning skýrðist málið ekki frekar að þessu leyti. Við svo búið telur áfrýjunarnefndin sér ekki unnt að taka efnislega afstöðu til málsins. Verður því ekki komist hjá því að ógilda hinn kærða úrskurð Samkeppniseftirlitsins og leggja fyrir eftirlitið að taka á ný afstöðu til málsins að undangenginni frekari rannsókn og að fengnum sjónarmiðum er varða þýðingu samningsins á milli áfrýjanda og KS frá 15. júlí 2008, uppgjöri á milli aðila hans og efndum á því tímabili sem meint brotastarfsemi stóð yfir.“ 

Samkeppniseftirlitið mun í samræmi við úrskurð áfrýjunarnefndar taka málið aftur til meðferðar. Jafnframt mun Samkeppniseftirlitið taka til rannsóknar hvaða ástæður liggja fyrir því að umræddur samningur var ekki lagður fyrir eftirlitið við rannsókn málsins, en viðurlög geta legið við því að halda upplýsingum frá eftirlitinu við rannsókn máls.