19.12.2014

Samkeppniseftirlitið leggur 80 m.kr. sekt á Securitas hf. fyrir brot á samkeppnislögum

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins sem birt er í dag er komist að þeirri niðurstöðu að Securitas hf. hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína á markaði fyrir öryggisgæslu fyrir heimili og fyrirtæki. Brot Securitas fólust í því að fyrirtækið gerði einkakaupasamninga við viðskiptavini sína um svokallaða Heimavörn og Firmavörn, en samningarnir fólu í sér að viðskiptavinunum var óheimilt að eiga viðskipti við aðra þjónustuaðila um nokkurra ára skeið. Einnig voru í samningunum ákvæði sem voru til þess fallin að skapa aukna tryggð viðskiptavina við Securitas.

Það er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að Securitas hafi verið markaðsráðandi í öryggisgæslu fyrir heimili og fyrirtæki. Hefur fyrirtækið haft mikla yfirburði á því sviði og var á árunum 2006-2011 sem til skoðunar voru með um 65-70% hlutdeild. Einkakaupasamningar fyrirtækisins höfðu því talsverð útilokunaráhrif og takmörkuðu möguleika minni keppinauta á að ná til sín auknum viðskiptum eða nýrra að komast inn á markaðinn.

Samkvæmt samningum Securitas hafa viðskiptavinir fyrirtækisins verið bundnir í viðskipti við það í a.m.k. þrjú ár. Í málinu hefur Securitas haldið því fram að samningarnir feli í sér greiðsludreifingu auk þess sem áhætta fyrirtækisins væri mikil ef ekki kæmi til þessi binditími. Í ákvörðuninni er ekki fallist á þessar skýringar að öllu leyti heldur er niðurstaðan sú að út frá rekstrarlegum forsendum geti Securitas ekki réttlætt svo langan binditíma.

Er það því niðurstaða Samkeppniseftirlitsins, að einkakaupasamningar Securitas með binditíma til þriggja ára auk ákvæða sem skapa aukna tryggð viðskiptavina við fyrirtækið, feli í sér misnotkun á markaðsráðandi stöðu og brot á 11. gr. samkeppnislaga. Vegna þessara brota er Securitas gert að greiða 80 milljón króna stjórnvaldssekt í ríkissjóð.