Hugsanleg misnotkun Já ehf. á markaðsráðandi stöðu aftur til Samkeppniseftirlitsins – Eftirlitið leitar sjónarmiða hagsmunaaðila
Hugsanleg misnotkun Já ehf. á markaðsráðandi stöðu aftur til Samkeppniseftirlitsins –Eftirlitið leitar sjónarmiða hagsmunaaðila Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur fellt úr gildi ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 31/2014 um misnotkun Já ehf. á markaðsráðandi stöðu sinni. Til málsins stofnaðist upphaflega með kvörtunum frá Miðlun hf. og Loftmyndum ehf., auk erindis frá Póst- og fjarskiptastofnun, vegna ætlaðrar útilokunar á samkeppni.
Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins var komist að þeirri niðurstöðu að Já ehf. hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína á markaði fyrir rekstur og heildsöluaðgang að gagnagrunni yfir símanúmer. Var Já ehf. í reynd í einokunarstöðu. Var það jafnframt mat Samkeppniseftirlitsins að aðgangur að gagnagrunni Já ehf. væri ómissandi fyrir þá aðila sem vilja bjóða upplýsingaþjónustu um símanúmer í samkeppni við fyrirtækið. Gagnagrunnur Já ehf. á rót sína að rekja til þess tíma sem einkaréttur ríkti í fjarskiptum hér á landi. Var gagnagrunnurinn áður undir yfirráðum Símans og forvera hans. Í ákvörðuninni var meðal annars bent á að þeim sem hugðust nýta gagnagrunnin í samkeppni við Já ehf. hefði verið gert að greiða mun hærra verð fyrir aðgang að honum en þeim sem fyrirtækinu stafaði engin samkeppnisleg ógn af. Taldi Samkeppniseftirlitið að háttsemi Já ehf. væri til þess fallin að útiloka samkeppni og gerði fyrirtækinu af þeim sökum að greiða 50 milljón króna stjórnvaldssekt í ríkissjóð.
Markaðsráðandi staða staðfest
Í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála, sem var kveðinn upp í gær, kemur fram að hvort tveggja Já ehf. og fyrri eigendur fyrirtækisins hafi talið fyrirtækið í markaðsráðandi stöðu. Við kaup nýrra eigenda á fyrirtækinu hafi verið samið um að varðveita verðgildi gagnagrunnsins með því, a.m.k. tímabundið, að torvelda öðrum að byggja upp sambærilegan gagnagrunn. Meðal annars með vísan til þessa staðfesti nefndin þá niðurstöðu að Já ehf. hefði verið í markaðsráðandi stöðu á markaði fyrir heildsöluaðgang að gagnagrunni yfir símanúmer. Í þessu sambandi tók nefndin fram að Já ehf. hefði verið staða sín vel ljós og verið umhugað um að vernda þá stöðu. Benti nefndin einnig á að umræddur gagnagrunnur væri bæði „heildstæður og einstakur“ og þar með ómissandi fyrir þá sem vildu hefja rekstur á þessu sviði.
Vísbendingar um vilja til að takmarka samkeppni
Í úrskurði nefndarinnar kemur fram að Já ehf. hafi verið skylt að verða við beiðnum nýrra keppinauta um aðgang að gagnagrunninum sem gæti rutt brautina fyrir samkeppni. Viðskiptakjör fyrir slíkan aðgang hafi þurft að vera sanngjörn. Taldi nefndin að upplýsingagjöf Já ehf. og skýringar fyrirtækisins á verðskrám sínum væru um sumt misvísandi og að vísbendingar um huglæga afstöðu forsvarsmanna fyrirtækisins til að takmarka samkeppni lægju fyrir. Samkeppnisyfirvöld þyrftu þó að færa sönnur fyrir því að fyrirtækið hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína.
Ekki fullar sönnur á óréttmæti verðs sem Já bauð keppinautum
Að því er snertir kostnað við starfrækslu gagnagrunnsins taldi nefndin að slíkur kostnaður hafi verið á bilinu 70-90 milljónir króna á ári á tímabilinu sem rannsókn samkeppnisyfirvalda tók til. Taldi nefndin að sú þóknun sem Já ehf. hefði áskilið sér fyrir aðgang að gagnagrunninum væri að sumu leyti óljós, því verðskrá væri háð því magni sem væntanlegur samkeppnisaðili hefði haft þörf fyrir. Um það magn lægi hins vegar ekkert fyrir í málinu. Hvað sem því liði væri ekki hægt að miða við hærri tekjur en hið fasta hámarksgjald gerði ráð fyrir, en að mati nefndarinnar var það 22-33,5 milljónir króna á ári. Í úrskurði nefndarinnar var bent á að Samkeppniseftirlitið hefði að talsverðu leyti stuðst við greiningu Póst- og fjarskiptastofnunar á kostnaði og tekjum Já ehf. Hafði Póst og fjarskiptastofnun talið verðlagningu Já óhóflega og samkeppnishamlandi. Áfrýjunarnefnd taldi hins vegar að greining Póst og fjarskiptasöfnunar fæli þó ekki í sér fullar sönnur þess að það verð sem Já ehf. bauð hafi verið óréttmætt. Í ljósi þess að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins fæli í sér refsikennd viðurlög yrði að virða þann vafa sem uppi væri í málinu Já ehf. í hag. Var sektarákvörðun Samkeppniseftirlitsins því felld úr gildi.
Óskað sjónarmiða fyrir 10. apríl nk.
Eins og áður segir lágu kvartanir frá Miðlun hf. og Loftmyndum ehf. til grundvallar ákvörðun Samkeppniseftirlitsins, auk erindis frá Póst- og fjarskiptastofnun. Í úrskurði sínum hefur áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfest markaðsráðandi stöðu Já á viðkomandi markaði. Jafnframt tekur nefndin fram að vísbendingar um vilja Já til að takmarka samkeppni hafi legið fyrir.
Með vísan til framangreinds liggur nú fyrir Samkeppniseftirlitinu að ákveða með hvaða hætti rétt sé að bregðast við framangreindum úrskurði. Mun Samkeppniseftirlitið leita sjónarmiða aðila málsins auk Póst- og fjarskiptastofnunar. Jafnframt gefur eftirlitið öðrum hagsmunaaðilum hér með kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Er þess óskað að slík sjónarmið berist eftirlitinu eigi síðar en 10. apríl nk.
Í framhaldinu mun Samkeppniseftirlitið ákveða hvort og hvernig brugðist verði við úrskurðinum.