Öflug uppbygging vegna efnahagsörðugleika
Viðskiptaráðuneytið og Samkeppniseftirlitið hrinda af stað vinnu við opnun samkeppnismarkaða og eflingu atvinnulífs
- Brýnt er að hefja öfluga uppbyggingu í íslensku atvinnulífi.
- Reynslan af efnahagskreppum sýnir að aðgerðir til þess að viðhalda og efla samkeppni stuðla að hraðari endurreisn atvinnulífsins.
- Samkeppniseftirlitið birtir í dag ítarlega skýrslu um opnun markaða og eflingu atvinnustarfsemi og samkeppni.
Tryggja verður faglegt og gagnsætt ferli við ákvarðanir bankanna og að þær verði málefnalegar og stuðli eins og mögulegt er að aukinni samkeppni og fjölbreytni í atvinnulífinu. - Samkeppniseftirlitið vinnur að skýrslu um eignatengsl í íslensku atvinnulífi, lærdóm sem hægt er að draga af þeim og lausnir til úrbóta.
Í framhaldi af efnahagshruni hér á landi eiga mörg fyrirtæki í erfiðleikum, atvinnuleysi eykst og heimili glíma við skuldir og skertar tekjur. Hætta er á því að fyrirtækjum fækki á mikilvægum mörkuðum vegna rekstrarörðugleika. Við þessar aðstæður er hætta á því að samkeppnishömlur og fákeppni fari vaxandi.
Afar brýnt er að stjórnvöld og fyrirtæki geri allt sem í þeirra valdi stendur til þess að takmarka tjón samfélagsins af skertri samkeppni. Jafnframt er mikilvægt að læra af fenginni reynslu með það í huga að skapa forsendur fyrir heilbrigðari og samkeppnishæfari fyrirtækjarekstri. Rannsóknir í hagfræði og reynsla annarra landa sem gengið hafa í gegnum sambærilega erfiðleika sýnir að aðgerðir til þess að viðhalda og efla samkeppni stuðla að hraðari endurreisn atvinnulífsins.
Með þetta að leiðarljósi er brýnt að ráðast í aðgerðir til þess að opna markaði og viðhalda eða efla samkeppni hér á landi. Með því móti er greitt fyrir atvinnuskapandi fyrirtækjarekstri. Í þessu skyni eru eftirfarandi aðgerðir kynntar:
Öflug uppbygging – opnun markaða og efling atvinnustarfsemi
Samkeppniseftirlitið birtir í dag ítarlega skýrslu (150 bls.) um opnun markaða og eflingu atvinnustarfsemi og samkeppni. Í skýrslunni er fjallað um eftirfarandi:
- Reynslu annarra ríkja af þýðingu samkeppni í efnahagskreppum og hvaða lærdóm megi draga af henni.
- Greiningu á um 15 samkeppnismörkuðum, þar sem dregnar eru fram helstu hindranir sem ný fyrirtæki eða smærri fyrirtæki standa frammi fyrir þegar þau hefja starfsemi eða hasla sér frekari völl. Jafnframt er bent á aðgerðir sem geta rutt úr vegi eða dregið úr þessum hindrunum.
- Bent á leiðir sem opinberir aðilar geta gripið til í því skyni að opna markaði og viðhalda samkeppni.
- Fjallað er um nýsköpun og frumkvöðla, þar sem dregnar eru á sama hátt fram helstu hindranir og bent á aðgerðir til úrbóta.
Fjölmargar hugmyndir og tillögur eru settar fram af hálfu Samkeppniseftirlitsins sem ætlað er eyða eða draga úr hindrunum og skapa þannig forsendur fyrir öflugri atvinnurekstri og auknum möguleikum frumkvöðla og nýsköpunarfyrirtækja. Beinast tillögurnar bæði að opinberum aðilum og fyrirtækjum. Tillögur þessar byggja á athugun Samkeppniseftirlitsins sem hófst strax eftir hrun viðskiptabankanna. Hefur þessi athugun m.a. falist í viðræðum við mörg fyrirtæki, hagsmunasamtök, opinberra aðila og fræðimenn við háskólana.
Verður skýrslan send fjölmörgum aðilum til umsagnar og verður hún almenningi aðgengileg á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins. Er vonast til þess að opinberir aðilar, fyrirtæki og almenningur gefi álit sitt á þessum tillögum og setji fram nýjar upplýsingar og hugmyndir um þessa og fleiri markaði. Óskað er eftir að slíkar upplýsingar og sjónarmið berist Samkeppniseftirlitinu við fyrstu hentugleika og eigi síðar en 15. janúar nk. Að þessu loknu mun Samkeppniseftirlitið leggja frekara mat á hvaða tillögur eru til þess fallnar að ná árangri og ákveða aðgerðir til þess að hrinda þeim í framkvæmd. Hér skiptir og máli að á grundvelli skýrslunnar geta stjórnvöld og fyrirtæki að eigin frumkvæði þegar í stað gripið til jákvæðra aðgerða sem efla atvinnulífið.
Skýrsluna er hægt að lesa hér, Þar er einnig hægt að koma upplýsingum og sjónarmiðum á framfæri.
Samkeppniseftirlitið hefur beint tíu meginreglum um samkeppni til viðskiptabanka í eigu ríkisins
Til þess að takmarka eins og kostur er tjón af skertri samkeppni er afar mikilvægt að bankar sem nú eru í eigu ríkisins hafi hliðsjón af þeim mikilvægu langtímahagsmunum almennings og viðskiptalífsins að virk samkeppni geti þrifist, þegar ákvarðanir eru teknar um framtíð fyrirtækja. Með þetta í huga hefur Samkeppniseftirlitið beint því til bankanna að hafa tilteknar tíu meginreglur til hliðsjónar við slíkar ákvarðanir. Meginreglurnar eru birtar í áliti nr. 3/2008. Ákvarðanir banka og stjórnvalda um framtíð fyrirtækja á samkeppnismörkuðum
Mikilvægt er að framangreind skýrsla um öfluga uppbyggingu og opnun markaða verði höfð til hliðsjónar við nánari útfærslu bankanna á þessum meginreglum og við ákvarðanir um framtíð fyrirtækja.
Krosseignatengsl
Samkeppniseftirlitið er að vinna að skýrslu um eignatengsl í íslensku atvinnulífi og þann lærdóm sem hægt er að draga af þeim tengslum hafa verið fyrir hendi. Ljóst er að krosseignatengsl, hulið eignarhald og ógagnsæ hagsmunatengsl geta raskað samkeppni og unnið gegn heilbrigðum fyrirtækjarekstri. Í skýrslunni verður fjallað um þetta og bent á lausnir til úrbóta.
Innkaup opinberra aðila og þátttaka í atvinnurekstri
Útboð og innkaup ríkis og sveitarfélaga geta haft umtalsverð áhrif á samkeppnisumhverfi fyrirtækja. Hið sama gildir um ýmis konar þátttöku eða afskipti opinberra aðila af fyrirtækjarekstri. Samkeppniseftirlitið vinnur að athugun á þessu og stefnir að því að beina leiðbeiningum til opinberra aðila um aðgerðir sem eflt geta samkeppni og bætt hagsmuni almennings.
Bakgrunnsupplýsingar
Ríkjandi ástand í efnahagslífinu gerir það að verkum að brýn nauðsyn er að hefja öfluga uppbyggingu í íslensku atvinnulífi. Í því sambandi hefur efling samkeppni miklu hlutverki að gegna. Samkeppni er ekki takmark í sjálfu sér heldur er hún tæki til þess að efla velferð almennings. Ástæða þessa er sú að virk samkeppni milli fyrirtækja laðar fram jákvæða þætti í atvinnulífinu. Hún leiðir til lægra verðs og til aukinna umsvifa í atvinnurekstri. Samkeppni skapar þannig atvinnu, stuðlar að efnahagslegum framförum og hvetur fyrirtæki til þess að bjóða almenningi upp á lægra verð og betri þjónustu en ella. Af þessu leiðir einnig að skortur á samkeppni og samkeppnishömlur fyrirtækja valda almenningi og atvinnulífinu umtalsverðu tjóni, með hærra vöruverði, ofríki gagnvart viðskiptavinum, lakari þjónustu og minna aðhaldi og hagkvæmni í rekstri viðkomandi fyrirtækja. Rök standa til þess að tjón af völdum samkeppnishamlna geti verið enn meira á Íslandi en í stærri ríkjum. Í nýrri matsgerð hagfræðinganna Guðrúnar Johnsen og Gylfa Zoëga, sem lögð hefur verið fram í máli olíufélaganna gegn Samkeppniseftirlitinu segir:
... Ísland er fámennt land og þjóðfélagið einkennist af nálægð og persónulegum kunningsskap. Við slíkar aðstæður aukast líkur á að stjórnendum fyrirtækja takist að stilla saman strengi, bæði er varðar þegjandi samkomulag og samráð. Af þessum sökum má draga þá ályktun að samráð sem stofnað er til hér á landi verði árangursríkara en samráð í stærri samfélögum.
Hin jákvæðu áhrif samkeppni eiga ekki aðeins við þegar góðæri ríkir. Þvert á móti er sérstaklega brýnt í efnahagsþrengingum að viðhalda eins og unnt er virkri samkeppni. Reynsla annarra landa sem gengið hafa í gegnum sambærilega erfiðleika og rannsóknir fræðimanna sýna að aðgerðir til þess að viðhalda og efla samkeppni stuðla að hraðari endurreisn atvinnulífsins. Að sama skapi er ljóst að aðgerðir sem takmarka samkeppni framlengja efnahagsörðugleika og vinna gegn bata.
Í ljósi núverandi ástands er mikilvægt að ráðist verði í vinnu við að verja og efla atvinnustarfsemi og búa svo um hnútana að kraftar samkeppni verði nýttir í því skyni að hjól atvinnulífsins geti á ný farið að snúast af krafti. Ein leið til þessa er að opna markaði og ryðja úr vegi óþarfa hindrunum við stofnun og rekstur nýsköpunar- og samkeppnisfyrirtækja og skapa þannig jarðveg fyrir nýja starfsemi og atvinnutækifæri. Afar mikilvægt er að fólk með mikla þekkingu sem nýlega hefur misst atvinnu hafi þann valkost og raunverulega möguleika á því að hefja atvinnurekstur og komast inn á markaði hér á landi. Átak gegn slíkum hindrunum hefur einnig þann kost að lítil fyrirtæki öðlast aukna möguleika til að ná frekari fótfestu á markaðnum og stækka og dafna. Með því móti eykst samkeppni sem bætir hag heimilanna.
Hjá stjórnendum hinna nýju ríkisbanka liggur mjög víðtækt ákvörðunarvald um framvindu atvinnulífsins. Á þeim vettvangi verður gripið til ráðstafana sem ráða örlögum mikilvægra fyrirtækja og geta haft mikla þýðingu fyrir þróun íslensks atvinnulífs og samkeppni á lykilmörkuðum. Tryggja verður faglegt og gagnsætt ferli við þessar ákvarðanir bankanna og að þær verði málefnalegar og stuðli eins og mögulegt er að aukinni samkeppni og fjölbreytni í atvinnulífinu.