22.5.2015

Vodafone og Nova heimilað að eiga með sér samstarf um rekstur dreifikerfis fyrir farsímaþjónustu

Þann 18. febrúar 2015 greindi Samkeppniseftirlitið frá því að heimasíðu sinni að Vodafone og Nova væri heimilt að hafa með sér tiltekið samstarf um rekstur dreifikerfis fyrir farsímaþjónustu. Er félögunum heimilt að eiga sameiginlega sérstakt rekstrarfélag sem annast rekstur dreifikerfisins. Forsenda samstarfsins er að aðilar hafa gert sátt við Samkeppniseftirlitið um að hlíta ítarlegum skilyrðum sem vinna eiga gegn því að samstarf félaganna um rekstur dreifikerfisins raski samkeppni á mörkuðum fyrir farsímaþjónustu á bæði heildsölustigi og smásölustigi.

Samkeppniseftirlitið hefur nú birt ítarlega ákvörðun, nr. 14/2015, á heimasíðu sinni. Þar er fjallað um þau skilyrði sem sett eru fyrir samstarfinu og rakin meðferð málsins og sjónarmið aðila á markaði. Frétt vegna málsins, dags. 18. febrúar 2015, má nálgast hér.