23.12.2008

Skýrsla norrænna samkeppniseftirlita um lyfjamarkað

Haustið 2007 ákváðu samkeppniseftirlit á Íslandi, Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð að næsta sameiginlega verkefni þeirra skyldi vera athugun á samkeppnislegum hindrunum á apóteka- og lyfjamörkuðum. Til að sinna því verkefni var skipaður starfshópur sem nú hefur birt niðurstöður vinnu sinnar á heimasíðum eftirlitanna í formi skýrslu. Skýrslan er skrifuð á norsku, dönsku og sænsku auk þess sem birtur er úrdráttur á ensku fremst í skýrslunni.

Nordic_icons

Lyfjamarkaðir eru hluti af heilbrigðiskerfi hvers lands hvarvetna á Vesturlöndum og þess vegna undir miklu opinberu eftirliti og stýringu. Um þá gilda margvísleg lög og reglur sem hafa áhrif á verð á mörkuðunum og gerð þeirra. Þetta á ekki síst við á Norðurlöndunum. Lögum og reglum um apóteka- og lyfjamarkaði er ætlað að tryggja þegnunum aðgengi að nægilegu úrvali af öruggum lyfjum gegn hóflegu verði. Reynt er að halda útgjöldum sjúklinga vegna lyfja niðri með því að ríkið taki drjúgan þátt í kostnaði af lyfjanotkun þeirra. Í því skyni að halda aftur af útgjöldunum ákveður hið opinbera verð á flestum lyfjum. Hin mikla opinbera stýring hefur óhjákvæmilega áhrif á samkeppnisumhverfi á apóteka- og lyfjamörkuðum. Samkeppni eru settar mjög þröngar skorður. Verðsamkeppni er þannig mjög takmörkuð og sama máli gegnir um aðgengi inn á markaði auk þess sem öll markaðssetning er hamin. Helstu samkeppnishvatar eru þjónusta lyfjafyrirtækja og staðsetning lyfjabúða, auk afslátta frá viðmiðunar- eða hámarksverði lyfja þar sem slíkt er heimilt.

Þó að markmiðið með opinberum afskiptum af apóteka- og lyfjamörkuðum sé svipað á Norðurlöndum og markaðirnir séu um margt líkir þá er regluverk einstakra landa að sumu leyti ólíkt. Hafa verið farnar mismunandi leiðir að þeim markmiðum sem stefnt er að. Þá breytast reglurnar á lyfjamörkuðum ört og hafa tekið miklum breytingum á undanförnum árum. Markmið með ýmsum breytingum hefur m.a. verið að örva samkeppni og ná þannig niður kostnaði við lyfjanotkun. Með vísan til þessa þótti norrænum samkeppnieftirlitum rík ástæða til að vinna skýrslu þar sem reynt væri að draga fram og bera saman samkeppnisaðstæður og umhverfi á apóteka- og lyfjamörkuðum á Norðurlöndum. Er það mat eftirlitanna að skýrsluna megi nota sem grunn fyrir stjórnvöld í ríkjunum við undirbúning og töku ákvarðana um reglubreytingar sem áhrif hefðu á samkeppnisumhverfi og samkeppnishætti á apóteka- og lyfjamörkuðum í löndunum. Skýrslan á einnig að auðvelda samkeppnisyfirvöldum að leggja mat á samkeppnisleg áhrif eða afleiðingar af breytingum á lögum og reglum sem varða apóteka- og lyfjamarkaði og gera þau betur í stakk búin að fjalla um einstök mál, þ.m.t. samrunamál, sem upp kunna að koma á umræddum mörkuðum.

Skýrsla (PDF skjal - Opnast ý nýjum glugga) norrænu samkeppniseftirlitanna, Konkurransemessige problemstillinger i apotek- og legemiddelsektoren.