Norræn ráðstefna um samkeppnismál
Dagana 27. og 28. ágúst s.l. stóð Samkeppniseftirlitið fyrir norrænni ráðstefnu um samkeppnismál. Ráðstefnuna sátu fulltrúar samkeppniseftirlita og ráðuneyta sem fara með samkeppnismál í Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Færeyjum, á Grænlandi og Íslandi. Ráðstefnan er liður í árlegu samstarfi eftirlitanna.
Á fundinum var rætt um stefnumótun á sviði samkeppnismála, en norrænu eftirlitin fjalla reglulega um áherslur í samkeppniseftirliti, sbr. t.d. skýrslu eftirlitanna nr. 1/2013, A Vision for Competition – Competition Policy towards 2020 og skýrslu nr. 1/2009, Competition Policy and Financial Crises.
Í tengslum við þessa umræðu flutti Gylfi Magnússon, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og fyrrverandi viðskipta- og efnahagsráðherra, ræðu um bankahrunið og þýðingu samkeppni við úrlausn kreppunnar á Íslandi. Gylfi fór yfir stöðuna í dag og þær breytingar sem hafa orðið frá hruni. Hann sagði m.a. að samkeppni hefði að ákveðnu marki aukist á þessum tíma og að innviðirnir styddu nú betur við samkeppni en áður. Þó væru ákveðnir veikleikar enn til staðar. Æskilegt væri að efla samkeppni á ýmsum sviðum og mikilvægt að fá fjölbreyttari og breiðari hóp eigenda að íslenskum fyrirtækjarekstri um leið og íslenskir lífeyrissjóðir taka á ný að fjárfesta erlendis. Óvíða væri starf samkeppniseftirlita jafn brýnt fyrir efnahagslíf þjóðar og hér á landi.
Ræðuna má nálgast hér.
Á ráðstefnunni var einnig fjallað sérstaklega um samkeppni og samkeppnishvata í heilbrigðisþjónustu á leigubílamörkuðum og í sorphirðu.