Ekki forsendur til íhlutunar vegna yfirtöku Landsbankans á Sparisjóði Norðurlands
Með ákvörðun nr. 23/2015, Yfirtaka Landsbanka hf. á Sparisjóði Norðurlands ses., hefur Samkeppniseftirlitið komist að þeirri niðurstöðu að ekki séu forsendur til íhlutunar vegna yfirtöku Landsbankans á Sparisjóði Norðurlands.
Samkeppniseftirlitið hefur í fyrri úrlausnum sínum fært fyrir því rök að tilvist sparisjóða geti falið í sér tækifæri til aukinnar samkeppni, t.d. með því að eignir þeirra, starfsleyfi og viðskiptavild nýtist til uppbyggingar á nýju afli sem veitt getur samkeppnisaðhald. Vísa má í þessu sambandi m.a. til skýrslu Samkeppniseftirlitsins nr. 1/2013, Fjármálaþjónusta á krossgötum. Það hefur hins vegar verið á ábyrgð m.a. eigenda sparisjóða að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til þess að stuðla að slíku samkeppnisaðhaldi almenningi og atvinnulífinu til hagsbóta.
Aukin samþjöppun á fjármálamarkaði gefur til kynna að þessi samruni hafi óheppileg áhrif á samkeppni á fjármálamarkaði. Til viðbótar liggur ekkert fyrir í málinu sem gefur til kynna að önnur sjónarmið eigi við um þennan samruna heldur en lögð hafa verið til grundvallar í eldri málum þegar stór viðskiptabanki hefur yfirtekið sparisjóð.
Í þessu máli er hins vegar byggt á því að sjónarmið um fyrirtæki á fallanda fæti eigi við. Það leiði til þess að ógilding samruna myndi í raun leiða til sömu niðurstöðu. Það er mat Samkeppniseftirlitsins að samrunaaðilar hafi sýnt fram á að þessi sjónarmið eigi við í málinu. Kjarni þeirrar niðurstöðu er eftirfarandi:
- Sparisjóðurinn uppfyllir ekki lagaskilyrði starfsleyfisskylds fjármálafyrirtækis. Honum er ómögulegt af eigin rammleik að uppfylla eiginfjárkröfur Fjármálaeftirlitsins.
- Stærsti stofnfjáreigandinn í sjóðnum, ríkissjóður, sem fer með tæplega 80% hlut í sjóðnum, hefur alfarið hafnað því að leggja sparisjóðnum til fé. Meðal annars þess vegna voru kröfuhafar ekki reiðubúnir til að koma að lausn málsins.
- Sparisjóðurinn greip til ráðstafana til þess að fá þriðju aðila, aðra en viðskiptabankana þrjá, til að leggja sjóðnum til fé og gerast eigendur að sjóðnum. Það er mat Samkeppniseftirlitsins að allir raunhæfir bjóðendur hafi komið til skoðunar þrátt fyrir að annmarkar hafi verið á kynningu sölutilrauna.
- Annmarkar á söluferlinu, bæði tímafrestum og skilyrðum gagnvart einstökum fjárfestum, breyta ekki niðurstöðu málsins. Ræður þar miklu að bjóðendur höfðu þekkingu á málinu vegna aðkomu að sölutilraunum annarra sparisjóða, auk þess sem þeir sögðu sig frá málinu áður en reynt hafði til fullnustu á tímafresti. Þá hafði einn hinna mögulegu fjárfesta ekki sýnt fram á hæfi sitt til að fara með virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki, þrátt fyrir að FME hefði leiðbeint honum þar um.
- Af sjónarmiðum FME verður ráðið að stofnunin muni beita valdheimildum sínum samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, verði ekki af þessum samruna.
Með vísan til framangreinds telur Samkeppniseftirlitið ekki forsendur til íhlutunar vegna samrunans. Nánari upplýsingar um þessa niðurstöðu er að finna í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins.