Vegna fréttar í Viðskiptablaðinu í dag um sektir Samkeppniseftirlitsins og úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála í sektarmálum
Í Viðskiptablaðinu í dag er fjallað um sektir sem Samkeppniseftirlitið hefur lagt á fyrirtæki vegna samkeppnislagabrota og endurskoðun áfrýjunarnefndar samkeppnismála á þeim sömu sektum. Af fréttinni má ráða að áfrýjunarnefnd samkeppnismála hafi lækkað verulega álagðar sektir Samkeppniseftirlitsins og sektarákvarðanir séu mun tíðari hér á landi en á hinum Norðurlöndunum.
Vegna fréttarinnar er rétt að eftirfarandi komi fram:
1. Frétt Viðskiptablaðsins er birt undir fyrirsögninni „Eðlilegt að sektir séu lækkaðar“. Af framsetningu fréttarinnar má ráða að þetta sé skoðun forstjóra Samkeppniseftirlitsins.
Svo er ekki. Samkeppniseftirlitið leggur á sektir að undangengnu mati á atvikum máls og alvarleika brota. Af sjálfu leiðir að fjárhæð sekta í ákvörðunum Samkeppniseftirlitsins endurspeglar það sem eftirlitið telur eðlilegar lyktir mála.
Fyrirtæki njóta hins vegar ríkrar réttarverndar sem birtist í því að þau geta borið ákvarðanir eftirlitsins undir áfrýjunarnefnd og dómstóla. Þar sæta ákvarðanir eftirlitsins ítarlegri endurskoðun og óhjákvæmilegt er að sú endurskoðun leiði í einhverjum tilvikum til breytinga á upphaflegri ákvörðun eftirlitsins.
2. Í fréttinni er sagt að áfrýjunarnefndin hafi lækkað sektir í þremur af síðustu fjórum málum þar sem Samkeppniseftirlitið hefur sektað fyrirtæki, um meira en milljarð króna.
Rétt er að halda því til haga að í tveimur af þremur tilvitnuðum málum lagði áfrýjunarnefndin ekki mat á sektir við ógildingu ákvörðunar. Í öðru tilvikinu, svokölluðu Já-máli, var ákvörðun ógilt þar sem áfrýjunarnefndin taldi að við athugun á verðlagningu Já hefði Samkeppniseftirlitið átt að leggja sjálfstætt mat á tiltekin kostnaðarleg atriði í stað þess að styðjast við rannsókn Póst- og fjarskiptastofnunar. Lagði nefndin því ekki efnislegt mat á sektarákvörðun eftirlitsins. Í hinu tilvikinu, svokölluðu MS-máli, var málinu vísað til rannsóknar að nýju til þess að meta áhrif samnings sem MS lagði fyrst fram fyrir áfrýjunarnefndina, en hafði ekki lagt fyrir Samkeppniseftirlitið þrátt fyrir ítrekaðar óskir um skýringar og gögn. Aðeins í einu framangreindra tilvika lagði áfrýjunarnefndin mat á fjárhæð sekta, þ.e. í nýgengnum úrskurði þar sem brot Byko á banni samkeppnislaga við ólögmætu samráði voru í aðalatriðum staðfest. Taldi nefndin að brotin væru ekki jafn alvarleg og Samkeppniseftirlitið lagði til grundvallar.
3. Réttilega kemur fram í fréttinni að samanlagðar sektir sem staðfestar hafa verið af áfrýjunarnefnd nema um 60% af samanlögðum sektum sem lagðar hafa verið á í upphaflegri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins. Er þetta hlutfall svipað þegar litið er til 8 ára tímabils fyrir hrun, þ.e. frá því sektarheimildum var fyrst beitt, og 7 ára tímabils eftir hrun. Af þeim sektarmálum sem gengið hafa til áfrýjunarnefndar stóðu sektir óbreyttar í 3 tilvikum fyrir hrun, samanborið við 11 tilvik eftir hrun. Sektir voru lækkaðar í 12 tilvikum fyrir hrun, samanborið við 7 tilvik eftir hrun. Þá voru sektir ógiltar í 2 tilvikum fyrir hrun, samanborið við 2 tilvik eftir hrun.
4. Í fréttinni er birt tafla yfir nokkur mál á síðustu árum þar sem sektir hafa verið lagðar á. Réttilega er tekið fram neðst í töflunni að hún sé ekki tæmandi. Sem dæmi má nefna að töflunni er ekki getið sektar vegna brota Valitor á samkeppnislögum, þar sem 500 m.kr. sekt var staðfest fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála. Úrskurður áfrýjunarnefndar um brotið var staðfestur af Héraðsdómi Reykjavíkur 6. maí sl. en sekt Valitors lækkuð í 400 milljónir kr. þar sem héraðsdómur taldi brot Valitors hafa varað skemur en áfrýjunarnefnd taldi.
Í töflunni er jafnframt tiltekið hlutfall sekta af hagnaði eða tapi árið áður. Þær sektir sem birtar eru í töflu Viðskiptablaðsins nema á bilinu 0,3 til 4,5 af veltu viðkomandi fyrirtækis. Í 6 af 8 tilvikum eru sektir undir 2% af veltu. Hámark sekta er 10% af veltu samkvæmt samkeppnislögum en sú regla er sett til að tryggja almennt meðalhóf.
Af því má sjá að sektarákvarðanir Samkeppniseftirlitsins eru langt innan þeirra marka sem sett eru í samkeppnilögum. Þær eru einnig langt innan þeirra leiðbeininga sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur sett sér. Hafa samkeppnisyfirvöld raunar sætt gagnrýni fyrir þetta, ekki síst í ljósi þess að í um fjórðungi tilvika frá hruni hefur hið sektaða fyrirtæki áður gerst brotlegt við samkeppnislög. Er það vísbending um að varnaðaráhrif fyrri íhlutunar hafa ekki verið nægileg.
5. Í fréttinni er birtur samanburður Viðskiptablaðsins á umfangi samkeppnissekta á Íslandi í samanburði við hin Norðurlöndin. Er höfðatölumælikvarði lagður til grundvallar. Sá mælikvarði er augljóslega marklaus í þessu tilviki, þar sem hann tekur ekki tillit til annarra aðstæðna í viðkomandi löndum. Nefna má í þessu sambandi að fræðimenn hafa bent á að samráðsbrot fyrirtækja séu bæði líklegri og skaðlegri í litlum hagkerfum eins og okkar.