30.11.2015

Árétting vegna umfjöllunar um frummatsskýrslu um markaðsrannsókn á eldsneytismarkaði

Í opinberri umfjöllun um skýrslu Samkeppniseftirlitsins nr. 2/2015, Markaðsrannsókn á eldsneytismarkaði, sem birt var í morgun, hefur komið fram í viðbrögðum olíufélaga að eftirlitið taki ekki tillit til stærðar markaða, þéttleika byggðar og flutnings- og dreifingarkostnaðar þegar álagning á íslenskum og breskum markaði er borin saman.

Af þessu tilefni vill Samkeppniseftirlitið árétta eftirfarandi:

Í frummatsskýrslunni byggir verðsamanburður á milli Íslands og Bretlands á tölum úr rekstri íslensku olíufélaganna og áætlaðri smásöluálagningu m.v. breska sjálfstæða smásala sem hafa einna hæstu smásöluálagningu þar í landi. Tekið er tillit til innkaupsverðs íslensku olíufélaganna, flutningskostnaðar til Íslands og dreifingar- og birgðakostnaðar á Íslandi í verðsamanburðinum. Frumniðurstaða um að íslenskir neytendur hafi ofgreitt 4,0 - 4,5 milljarða króna (með vsk) á árinu 2014 miðast við neðri mörk samanburðarins og er því varfærin.

Nánari upplýsingar má finna í kafla 6.3.2 og 6.3.3 í frummatskýrslunni á vef Samkeppniseftirlitsins.