Samkomulag um samræmda beitingu greiðsluerfiðleikaúrræða
Í tilefni af fréttaflutningi af samkomulagi stjórnvalda um samræmda beitingu greiðsluerfiðleikaúrræða vill Samkeppniseftirlitið taka þetta fram:
Þann 30. janúar sl. veitti Samkeppniseftirlitið Samtökum fjármálafyrirtækja undanþágu frá samkeppnislögum til að móta sameiginlegt verklag um hvernig unnt sé að koma til móts við þá sem eiga í alvarlegum greiðsluerfiðleikum. Var miðað við að afrakstur þeirrar vinnu yrði síðan borin undir samkeppnisyfirvöld. Þann 6. apríl sl. óskuðu síðan Samtök fjármálafyrirtækja eftir undanþágu frá banni samkeppnislaga við samvinnu keppinauta vegna samkomulags fjármálafyrirtækja, ásamt félags- og tryggingarmálaráðuneyti og viðskiptaráðuneyti, um samræmda beitingu greiðsluerfiðleikaúrræða. Þann 8. apríl sl. barst undanþágubeiðni vegna samkomulags um beitingu greiðslujöfnunar gengistryggða fasteignaveðlána til einstaklinga. Meðferð þessara mála hefur verið hraðað eins og unnt er og bárust lokagögn frá málsaðilum þann 15. apríl sl. Mun Samkeppniseftirlitið ljúka málunum í þessari viku.