Viðskiptabönkum, sparisjóðum, lífeyrissjóðum og Íbúðalánasjóði veitt heimild til að samræmdrar beitingar greiðsluerfiðleikaúrræða
Samkeppniseftirlitið hefur í dag veitt viðskiptabönkum, sparisjóðum, lífeyrissjóðum og Íbúðalánasjóði heimild til að samræmdrar beitingar greiðsluerfiðleikaúrræða vegna einstaklinga með fasteignaveðlán. Ákvörðunin lýtur annars vegar að samkomulagi fyrirtækja á fjármálamarkaði, félags- og tryggingarmálaráðuneytis og viðskiptaráðuneytis, um samræmda beitingu greiðsluerfiðleikaúrræða, frá 3. apríl sl., og hins vegar samkomulagi um beitingu greiðslujöfnunar gengistryggða fasteignaveðlána til einstaklinga, frá 8. apríl sl.
Í ákvörðuninni kemur fram forsendur séu til þess að veita heimild til umrædds samstarfs þar sem samningarnir séu til verulegs hagræðis fyrir skuldara og jafnvel kröfuhafa eins og á stendur. Þýðingu hefur í þessu sambandi að samningarnir eru uppsegjanlegir og tímabundnir og hindra ekki keppinauta í að beita frekari úrræðum viðskiptavinum til hagsbóta. Því eru samningarnir heimilaðir með vísan í 15. gr. samkeppnislaga.
Skilyrði sett til að vernda samkeppni
Í því skyni að vinna gegn því að umrædd samræming greiðsluerfiðleikaúrræða leiði af sér frekari samræmingu á viðskiptaskilmálum sem til tjóns yrði fyrir samkeppni, neytendur og atvinnulíf, er í ákvörðuninni mælt fyrir um sérstaka upplýsingagjöf til Samkeppniseftirlitsins um viðskiptaskilmála einstakra fyrirtækja á fjármálamarkaði sem aðilar eru að samkomulaginu. Þá er því beint til umboðsmanna viðskiptavina sem skipaðir hafa verið hjá ríkisbönkunum þremur að þeir stuðli að því að viðkomandi bankar starfi í samræmi við ákvörðunina.
Málsmeðferð
Samkeppniseftirlitinu bárust erindi vegna samninganna þann 6. og 8. apríl. Lokagögn vegna athugunar Samkeppniseftirlitsins bárust frá málsaðilum þann 15. og 21. apríl. Áður hafði Samkeppniseftirlitið veitt Samtökum fjármálafyrirtækja undanþágu frá samkeppnislögum til að móta sameiginlegt verklag um hvernig unnt væri að koma til móts við þá sem eiga í alvarlegum greiðsluerfiðleikum, með bréfi dags. 30. janúar sl. Afrakstur þeirrar vinnu var borin undir Samkeppniseftirlitið með fyrrgreindum erindum, sem nú eru tekin til ákvörðunar.
Sjá nánar ákvörðun nr. 16/2009.