28.1.2016

Um tímalengd rannsóknar á samruna Gæðabaksturs og Brauðgerðar Kr. Jónssonar á Akureyri.

Í síðustu viku tók Samkeppniseftirlitið ákvörðun nr. 1/2016 vegna samruna Gæðabaksturs og Brauðgerðar Kr. Jónssonar á Akureyri. Lögmaður fyrirtækjanna í málinu fyrir Samkeppniseftirlitinu, Heiðrún Lind Marteinsdóttir hdl., hefur opinberlega gert athugasemdir við tímalengd rannsóknarinnar, sbr. grein í Fréttablaðinu þann 27. janúar 2016 undir yfirskriftinni „Samkeppniseftirlit og biðin langa“. Í greininni er kallað eftir skýringum.

Samkeppniseftirlitinu er ljúft og skylt að gera grein fyrir rannsókn málsins, en jafnframt er gerð grein fyrir henni í ákvörðuninni, sem birt er á heimasíðu eftirlitsins. Meginatriði málsins eru eftirfarandi:

  • Samrunatilkynning barst 9. september sl. Byrjaði þá að líða frestur í fasa I til skoðunar á málinu, sem samkvæmt samkeppnislögum er ákveðinn 25 virkir dagar. Innan þess frests skal Samkeppniseftirlitið „tilkynna þeim aðila sem sent hefur stofnuninni samrunatilkynningu ef hún telur ástæðu til frekari rannsóknar á samkeppnislegum áhrifum samruna“, eins og það er orðað í 17. gr. d. samkeppnislaga.
  • Við fyrstu skoðun á samrunanum og athugun erlendra fordæma blasti við að um væri að ræða samruna keppinauta, sem leiða myndi til þess að helstu keppinautum á þeim mörkuðum sem fyrirtækin starfa helst á myndi fækka úr þremur í tvo. Jafnframt lá fyrir að um mikilvægan neytendamarkað er að ræða, en heildarvelta á mörkuðum fyrir brauð og bakaðar vörur nemur a. m. k. 6,5 milljörðum króna á landinu öllu. Voru samrunaaðilar upplýstir um þessa stöðu málsins og að eftirlitinu bæri skylda til þess að rannsaka slíkan samruna með nákvæmum hætti. - Óhjákvæmilegt var því að taka samrunann til frekari rannsóknar og var samrunaaðilum gerð grein fyrir því þann 12. október sl. Byrjaði þá að líða frestur í fasa II sem kveðið er á um í lögum, 70 virkir dagar.
  • Við rannsóknina þurfti Samkeppniseftirlitið að meta viðkomandi markaði og var stuðst við þekkt fordæmi úr samkeppnisrétti við það mat. Jafnframt þurfti að afmarka keppinauta á viðkomandi mörkuðum, en við upphaf rannsóknar lágu ekki fyrir nægilegar upplýsingar um það.
  • Samkeppniseftirlitið aflaði gagna frá 38 aðilum, að frátöldum samrunaaðilum. Var þar bæði um að ræða keppinauta, birgja og endurseljendur. Átti Samkeppniseftirlitið þessar upplýsingar ekki tiltækar úr nýlegum rannsóknum.
  • Upplýsingarnar sem aflað var voru nýttar til að varpa ljósi á markaðshlutdeild samrunaaðila á markaðnum og önnur samkeppnisleg áhrif samrunans, sbr. umfjöllun á bls. 7-14 í umræddri ákvörðun. Upplýsingaöflun af þessu tagi er óhjákvæmilega tímafrek, þótt ástæða sé til að þakka meginþorra fyrirtækja fyrir það liðsinni sem þau veita við rannsókn þessara mála, með því að svara fyrirspurnum greiðlega.
  • Á grundvelli framangreindrar gagnaöflunar komst Samkeppniseftirlitið að lokum að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til íhlutunar. Ákvörðunin var birt aðilum þann 21. janúar sl.
  • Ljóst er að bið samrunaaðila eftir niðurstöðu samkeppnisyfirvalda getur verið íþyngjandi þegar miklir hagsmunir liggja við. Samkeppniseftirlitið hefur við tilteknar aðstæður heimild til að greiða götu þeirra með því að heimila þeim að hefja framkvæmd samruna, þótt endanleg niðurstaða liggi ekki fyrir. Í þessu máli veitti Samkeppniseftirlitið einmitt slíka heimild sama dag og beiðni þar um barst eftirlitinu, eða þann 18. desember sl.


Af ofangreindu er ljóst að rannsókn Samkeppniseftirlitsins var í fullu samræmi við lög og vilja löggjafans sem þar býr að baki. Jafnframt liggur fyrir að vinnsla mála af þessu tagi er með líkum hætti og tíðkast í nágrannalöndum. Fyrirfram má þó gera ráð fyrir að lengri frestur (II. fasi) sé virkjaður í hlutfallslega fleiri samrunum í löndum þar sem mikil fákeppni ríkir, eins og hér á landi, samanborið við stærri efnahagssvæði þar sem minni samþjöppun er á mörkuðum. Samkeppniseftirlitið hefur þó ekki tiltækar samanburðartölur hvað þetta varðar.

Samkeppniseftirlitið áréttar að það hefur skilning á hagsmunum fyrirtækja af því að fá greiða úrlausn á sínum málum. Eftirlitið mun fara yfir feril þessa máls eins og annarra og meta hvort læra megi af því, með að það markmiði að stytta feril mála. Allar málefnalegar ábendingar um vinnslu mála hjá Samkeppniseftirlitinu eru vel þegnar. Hægt er t.d. að koma þeim á framfæri á samkeppni@samkeppni.is, fésbók eftirlitsins eða með símtali.