24.2.2016

Erum við að sóa úrgangi? Úrgangur er verðmæti, ekki rusl.

Ný skýrsla norrænu samkeppniseftirlitanna: Samkeppni við meðhöndlun úrgangs

Niðurstöður skýrslunnar, Competition in the Waste Management Sector – Preparing for a Circular Economy, benda til þess að þörf sé á því að auka samkeppni á sviði meðhöndlunar úrgangs.

Norrænu samkeppniseftirlitin hafa grandskoðað stöðu samkeppni við meðhöndlun úrgangs á Norðurlöndunum með áherslu á sameiginleg vandamál og lausnir. Í skýrslunni eru lagðar til tilteknar úrbætur sem ætlað er að draga úr samkeppnishindrunum og skapa hagkvæmari markaði fyrir meðhöndlun úrgangs.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins:

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins:
Með birtingu þessarar skýrslu vill Samkeppniseftirlitið taka þátt í umræðu um það hvernig unnt er að nýta samkeppnishvata til að skapa tækifæri til aukinnar verðmætasköpunar í meðhöndlun úrgangs. Reynslan sýnir að nýsköpun frumkvöðla í atvinnulífinu hefur oft leitt til framfara á þessu sviði.

Það er mat Samkeppniseftirlitsins að í dag sé samkeppni vannýtt við meðhöndlun úrgangs, sem leiðir til hærri kostnaðar, lakari umhverfisverndar og takmörkunar á nýsköpun. Í skýrslunni er m.a. að finna tilmæli um með hvaða hætti unnt er að bæta nýtingu úrgangs sem hráefnis og þar með ná markmiðum löggjafans um aukna umhverfisvernd.

Sveitarfélög og fyrirtæki þeirra eru mikilvægir þátttakendur á sviði meðhöndlunar úrgangs. Hlutverk sveitarfélaga er auk þess að miklu leyti lögbundið á þessu sviði. Leiða fjölþætt hlutverk sveitarfélaga á sviði meðhöndlunar úrgangs stundum til hagsmunaárekstra og óþarfa samkeppnishamla gagnvart einkareknum fyrirtækjum. Samkeppniseftirlitið hvetur öll sveitarfélög til að beita opinberum útboðum í ríkum mæli til þess að láta reyna á hvort markaðurinn bjóði upp á ódýrari og betri lausnir en nú er stuðst við. Mjög mikilvægt er þó að vandað sé til verka við útboð á þjónustunni en illa skipulögð útboð geta leitt til töluverðs kostnaðar fyrir íbúa sveitarfélaga. Af þessum sökum er lagt til að umgjörð þjónustu við útboð verði styrkt og samstarf á milli sveitarfélaga á sviði útboða verði aukið.

Þegar sveitarfélög ákveða hvort bjóða eigi út þjónustu á sviði meðhöndlunar úrgangs eða byggja upp eigin innviði er mikilvægt að þau meti kosti og galla mismunandi lausna með heildrænum hætti. Rannsóknir hafa sýnt að unnt er að ná fram sparnaði sem nemur 10-47% á sviði söfnunar úrgangs sé útboðum beitt, sjá bls. 138 í skýrslunni. Þá sýnir reynslan frá nágrannalöndum okkar að áhættusamt getur verið fyrir sveitarfélög að ráðast í kostnaðarsamar fjárfestingar á sviði meðhöndlunar úrgangs. Þannig geta illa ígrundaðar fjárfestingar leitt til aukins kostnaðar fyrir íbúa sveitarfélaga. Framangreint á sérstaklega við í dag þegar sveitarfélög standa frammi fyrir því að taka ákvörðun um hvort fjárfesta skuli í nýjum lausnum, t.a.m. á sviði lífrænnar meðhöndlunar úrgangs og gasgerðar, eða útvista verkefnunum til einkafyrirtækja.

Í skýrslunni er tekið mið af umhverfismarkmiðum og þá sérstaklega hinu svokallaða hagkerfi hringrásar. Hugmyndin um hagkerfi hringrásar kallar á hugarfarsbreytingu þegar kemur að meðhöndlun úrgangs. Markmiðið er að draga úr förgun úrgangs eftir því sem framast er unnt, en til að það markmið náist er nauðsynlegt að ný tækni komi til sögunnar, aðferðir við flokkun úrgangs batni og hagkvæmari lausnir nýttar. Það er mat norrænu samkeppniseftirlitanna að samkeppni sé nauðsynlegur þáttur í því að hagkerfi hringrásarinnar virki enda sýnir reynslan að samkeppni er besta og einfaldasta leiðin til að ýta undir hagkvæman rekstur, notkun nýrrar tækni og nýsköpun.

Skýrsluna má nálgast á pdf og í flettara.

Nánari upplýsingar um skýrsluna á íslensku.


Hagkerfi hringrásar (e. Circular economy): Hagkerfi hringrásarinnar hefur verið kynnt sem ein af meginstefnum Evrópusambandsins og þar með EES-svæðisins. Í þessari nýju nálgun felst að ekki er lengur litið á úrgang sem einungis vandamál, heldur verðmæta auðlind sem ber að nýta. Markmið hagkerfis hringrásarinnar er að færa okkur frá línulegu hagkerfi þar sem hráefnis er aflað, það notað í framleiðslu og fargað að lokum, til hagkerfis þar sem vörur og hráefni eru endurnýtt eða endurunnin til að skapa nýjar vörur og verðmæti.

Sjá nánar um hagkerfi hringrásar á vef framkvæmdarstjórnarinnar.